Zoom nær þrefaldar tekjur sínar

02.06.2020 - 23:37
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Fyrirtækið Zoom, sem rekur samnefnt samskiptaforrit sem hefur notið mikilla vinsælda í kórónuveirufaraldrinum, hagnaðist um tuttugu og sjö milljónir dollara fyrstu þrjá mánuði ársins. Tekjur fyrirtækisins nær þrefölduðust miðað við sama tíma í fyrra.

Yfir tvö hundruð sextíu og fimm þúsund manns kaupa þjónustu af Zoom, sem er aukning um þrjú hundruð og fimmtíu prósent frá árinu áður. Eric Yuan, eigandi fyrirtækisins, segir COVID-19 faraldurinn hafa aukið kröfur um að fólk geti átt samskipti augliti til auglitis, sem skýri betri afkomu.

Þrjátíu sinnum fleiri notuðu forritið í apríl en í sama mánuði í fyrra. Þegar mest lét notuðu rúmlega þrjú hundruð milljónir einstaklinga það daglega og þrisvar sinnum fleiri notendur borguðu fyrir það mánaðarlega í gegnum áskrift.

Fyrirtækið lenti þó einnig í vandræðum í faraldrinum og er það nú til rannsóknar eftir að öryggisgallar fundust í forritinu, sem enn hefur ekki tekist að leysa fyllilega úr. Þúsundir funda í gegnum Zoom rötuðu á netið og þá hafa netþrjótar náð að komast inn í fundi sem eru í gangi í gegnum forritið. Meðal annars hafa netþrjótar truflað streymi frá kennslustundum í skólum með klámfengnu eða hatursfullu efni. 

Zoon hefur lofað að taka hart á málunum, stöðva alla vinnu sem miðar að útbúa nýja möguleika og einbeita sér frekar að því að laga öryggisgalla forritsins.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi