Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tryggingastofnun stóð frammi fyrir fjárnámi

02.06.2020 - 05:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Í liðinni viku var Sigríður Lilly Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, boðuð til fyrirtöku á fjárnámi gegn stofnuninni. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Fyrirtakan var að kröfu tveggja öryrkja sem í apríl höfðu gert dómsátt við stofnunina um greiðslu vegna búsetuskerðingar. Fjárhæðin nam samtals vel á sjöttu milljón króna.

Tryggingastofnun stóð ekki við greiðslu til fólksins sem fór því fram á fjárnám hjá henni.

Eftir að aðfararbeiðnin barst stofnuninni fékk fólkið greitt, en deilur um endurgreiðslu höfðu staðið í ríflega tíu ár áður en sáttin var gerð. 

Uppfært kl. 17:18 2. júní 2020 - Engin krafa um fjárnám barst Tryggingastofnun. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu frá stofnuninni síðdegis í dag. Dómssáttin var greidd miðvikudaginn 27. maí, 11 dögum eftir að greiðslufrestur rann út.