Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Síðustu orð Floyds svífa yfir borgum Bandaríkjanna

Mynd með færslu
 Mynd: Jammie Holmes - Library Street Collective

Síðustu orð Floyds svífa yfir borgum Bandaríkjanna

02.06.2020 - 14:01

Höfundar

Jammie Holmes, listamaður, mótmælti morðinu á George Floyd í háloftunum um helgina.

Setningarnar „gerðu það, ég get ekki andað“, „mig verkjar í magann“, „mig verkjar í hálsinn“, „mig verkjar alls staðar“, „þeir eru að fara að drepa mig“, fóru í eftirdragi flugvéla yfir fimm borgir í Bandaríkjunum á laugardag. 

Orðin mælti George Floyd meðan lögreglumaðurinn Derek Chauvin hélt honum föstum, þrýsti hné í hnakka hans í tæpar níu mínútur, þar til hann kafnaði og lést.

Síðustu orð Floyds hafa orðið að slagorði þeirra sem mótmæla nú kynþáttahatri og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum. „Ég taldi þetta vera betri leið til að koma mínum skilaboðum áleiðis [frekar en með aðgerðum á jörðu niðri],“ segir Jammie Holmes, myndlistarmaðurinn sem stóð fyrir gjörningnum, í samtali við New York Times

Mynd með færslu
 Mynd: Emery Davis - Jammie Holmes
Jammie Holmes.

Holmes er upprennandi listamaður frá Dallas, einkum þekktur fyrir málverk sín sem varpa ljósi á daglegt líf svartra Bandaríkjamanna í suðrinu. Gjörningurinn, þar sem síðustu orð George Floyd fóru um himna New York, Miami, Detroit, Dallas og Los Angeles, var unninn í samstarfi við Library Street Collective.

Hann segist hafa viljað nýta himininn sem miðil fyrir skilaboð sín í mótsetningu við við skvaldrið á stafrænum miðlum. „[Flugvélaborðar] eru sjaldan nýttir í pólitískum eða samfélagsmiðuðum tilgangi – til að nýta tjáningarfrelsið – vegna þess að þeir eru tjáningarleið sem stendur ekki fátækum eða jaðarsettum til boða,“ segir í yfirlýsingu listamannsins. Verk Holmes hafa áður tekist á við kynþáttahatur og lögregluofbeldi. „Það kemur að því, að þið áttið ykkur á því að þið getið ekki drepið okkur alla,“ segir hann. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Jammie Holmes (@jholmes214) on

Tengdar fréttir

Tónlist

Myrkvun hjá tónlistarfólki á samfélagsmiðlum

Erlent

Læknir fjölskyldu Floyd segir hann hafa kafnað

Norður Ameríka

„Forréttindi hvítra eru kerfislæg“

Íþróttir

„Okkur er nóg boðið“