Sandra og stöllur í undanúrslit

Mynd með færslu
 Mynd: Leverkusen

Sandra og stöllur í undanúrslit

02.06.2020 - 19:45
Sandra María Jessen var í byrjunarliði Bayer Leverkusen sem komst í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld. Framlengja þurfti leik liðsins við Hoffenheim.

Leikurinn var sá fyrsti í 8-liða úrslitum bikarsins og fór hann fram á heimavelli Leverkusen. Gestirnir leiddu þar 1-0 í leikhléi eftir mark varnarmannsins Maximiliane Rall undir lok fyrri hálfleiks. Bosníska landsliðskonan Milena Nikolic jafnaði fyrir Leverkusen á 66. mínútu og lauk leiknum 1-1 í venjulegum leiktíma.

Framlengja þurfti því til að úkljá hvort liðanna færi áfram í næstu umferð. Þar reyndist króatíski landsliðskonan Ivana Rudelic hetja Leverkusen eru hún skoraði tvö mörk í framlengingunni áður en Tabea Wassmuth skoraði sárabótarmark fyrir Hoffenheim í uppbótartíma.

Leverkusen vann 3-2 og er því komið í undanúrslit bikarsins. 8-liða úrslitin klárast með þremur leikjum á morgun. B-deildarlið Arminia Bielefeld tekur á móti úrvalsdeildarliði Sand, úrvalsdeildarliðin Turbine Potsdam og Essen eigast við og þá heimsækja ríkjandi meistarar Wolfsburg, með Söru Björk Gunnarsdóttur innanborðs, B-deildarlið Gutersloh.