Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sagði brot Lilju eitt af þeim verri sem hefði sést

02.06.2020 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir ekki hægt að draga aðra ályktun af rökstuðningi kærunefndar jafnréttismála í máli menntamálaráðherra en að þetta hafi verið ásetningsbrot. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði brotið jafnréttislög þegar hún réð Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu. Lilja upplýsti ráðherra ríkisstjórnarinnar um úrskurðinn á fundi í morgun.

Hanna Katrín ræddi úrskurð kærunefndarinnar í óundirbúnum fyrrispurnartíma á Alþingi í dag. Til svara var Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, en jafnréttismálin heyra undir forsætisráðuneytið. 

Hanna Katrín rifjaði upp að opinberar stofnanir hefðu 25 sinnum brotið  jafnréttislög frá árinu 2009.  Og að forsætisráðherra hefði sagt að þetta væru 25 brotum of mikið.  Hanna Katrín sagði rökstuðning kærunefndarinnar í máli LIlju vera sláandi  og raunar væri ekki hægt að draga aðra ályktun en hér hefði verið ásetningsbrot.  Hún spurði hvort forsætisráðherra hefði ekkert annað í sínu vopnabúri en að beina kurteisislegum tilmælum til þeirra sem þarna voru að verki.

Katrín Jakobsdóttir sagði Lilju hafa upplýst ríkisstjórnina um úrskurðinn á fundi hennar í morgun. Hann yrði síðan ræddur á fundi hennar á föstudag. Hún sagði að sú sem kærði ráðningu Páls hefði ekki verið í hópi þeirra sem hefðu verið metnir hæfastir og það kallaði á að menntamálaráðherra skoðaði málatilbúnað og hvort réttilega hefði verið að honum staðið.  Hún spurði sig síðan þeirrar spurningar hvort hið opinbera væri að nýta úrskurði kærunefndarinnar nægjanlega til leiðsagnar og sagðist telja að hægt væri að gera betur í því að fækka þessum brotum.

Hanna Katrín benti á að sú sem kærði hefði ítrekað þurft að biðja um gögn um málið . Hún hefði í fyrstu fengið þau svör að einkahagsmunir annarra væru ríkari en hagsmunir hennar. „Þetta er algjörlega galið,“ sagði Hanna Katrín og taldi brot ráðherrans væri eitt af þeim verri sem hefði sést. „Þetta gengur ekki lengur svona.“

Katrín sagði að Lilja þyrfti að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum.  Það skipti hins vegar máli í stóru myndinni hvernig væri hægt að leiðsegja stjórnsýslunni betur.  Dæmdar væru bætur sem kæmu úr vasa skattgreiðenda „en við þurfum að fara í virkari vinnu til að koma í veg fyrir svona brot.“