Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rjúpu fækkar fyrir norðan en fjölgar annars staðar

02.06.2020 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Rjúpu hefur fækkað á Norðurlandi en fjölgað í öðrum landshlutum. Þetta sýna niðurstöður úr rjúpnatalningum sem lauk nýlega. Ólafur K Nielsen, fulglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun segir að rjúpnafjöldinn í ár sé undir meðallagi á Norðausturlandi og Austurlandi en annars staðar um og yfir meðallagi

Rjúpur voru taldar á 32 svæðum í öllum landshlutum og tóku 35 manns þátt í talningunum. Alls sáust 1315 karrar sem er eitt til tvö prósent af áætluðum heildarfjölda karra samkvæmt stofnstærðarmati.

Ólafur K. Nielsen fuglafræðingur segir að stofn rjúpunnar rísi og hnígi, núna séu landshlutarnir úr fasa og muni þar einu til tveimur árum.
 
„Á Suðurlandi og á vestanverðu landinu og Vestfjörðum, þar virðist stofninn vera að ná hámarki en hann var í hámarki á Norðurlandi og Norðausturlandi fyrir tveimur árum síðan. Þannig að við búumst við falli síðan Vestanlands annaðhvort næsta ár eða þarnæsta ár.“
 
Miðað við ástand rjúpnastofnsins frá síðustu aldamótum er rjúpnafjöldinn árið 2020 undir meðallagi á Norðausturlandi og Austurlandi en annars staðar um og yfir meðallagi. 
 
Ólafur segir að á sjöunda og áttunda áratugnum hafi stofninn verið í takti um land allt en síðan hefur vestanvert landið skorið sig frá norðanverðu landinu.

„En það má vel vera að þetta hrökkvi í sama gírinn á einhverjum tímapunkti.“
 
Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins og nánari greining á stofnbreytingum mun liggja fyrir í ágúst eftir að afföll hafa verið mæld og árangur varps í sumar metinn. 

Lesa má um rjúpnatalninguna á vef Náttúrufræðistofnunar

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV