Myrkvun hjá tónlistarfólki á samfélagsmiðlum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Myrkvun hjá tónlistarfólki á samfélagsmiðlum

02.06.2020 - 10:11
Dagurinn í dag er myrkvaður á samfélagsmiðlum hjá listamönnum, tónlistarfólki, plötuútgefendum og fleirum. Myrkvuninni er ætlað að vekja athygli á framlagi svarts fólks til tónlistar í kjölfar á því að George Floyd var myrtur og vekja fólk til umhugsunar um ofbeldi sem lögregla beitir svarta Bandaríkjamenn. Mótmælaalda hefur riðið yfir Bandaríkin og heiminn allan síðustu vikuna.

Myllumerkið #BlackLivesMatter hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum síðustu vikunar. Skipuleggjendur myrkvunarinnar í dag eru tónlistarkonurnar Jamila Thomas og Brianna Agyemang. Þær vilja með átakinu hvetja tónlistarfólk til að nota myllumerkið #TheShowMustBePaused. Fólk er hvatt til að staldra við og líta í eign barm. Það eigi ekki að halda áfram með „business as usual“ án tillits til lífs svarts fólks. 

Á heimasíðu átaksins kemur fram að tónlistarbransinn sé milljarða dollara atvinnugrein sem hefur grætt gífurlega á tónlist listamanna sem eru dökkir á hörund. Markmiðið sé að iðnaðurinn allur, hvort sem er einstaklingar eða stórfyrirtæki, verði gerður ábyrgur fyrir þeirri baráttu sem hefur verið nauðsynleg fyrir velgengni svartra í bransanum.

Fjölmargir tónlistarmenn hafa tilkynnt að þeir ætli að taka þátt, eða hafa nú þegar tekið þátt, og þá hafa plötufyrirtæki á borð við Sony Music, Columbia Records og Warner Music Group lýst yfir stuðningi við málefnið. Spotify hefur líka tilkynnt um þátttöku sína og fjöldinn allur af lagalistum frá streymisveitunni hefur verið gerðir svartur að lit. Þá innihalda valdir lagalistar og hlaðvörp átta mínútna og 46 sekúndna langa þögn, en það er tíminn sem George Floyd var haldið niðri af lögreglumanni. 

Mynd með færslu
Lagalistar Spotify

Fjölmargir Íslendingar og íslenskir tónlistarmenn hafa nú þegar tekið þátt í myrkvuninni og birt svarta mynd á Instagram en svo virðist sem átakið hafi dreifst mun víðar en bara innan tónlistarbransans. Leikarar, leikkonur, íþróttafólk, áhrifavaldar og venjulegir samfélagsmiðlanotendur hvaðanæva að úr heiminum hafa stokkið á vagninn og nú þegar hafa 2,2 milljón svartar myndir verið birtar á Instagram með myllumerkinu #BlackOutTuesday. Gera má ráð fyrir að fjölgunin verði mikil þegar líður á daginn og Bandaríkjamenn fara á fætur. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by JóiPé (@joiipe) on

Fólk hefur líka farið mikinn á Twitter en þar hefur verið bent á að ekki ætti að nota myllumerkið #BlackLivesMatter, sem hefur mest verið notað á samfélagsmiðlum undanfarið til þess að koma á framfæri upplýsingum til þeirra sem vilja styðja við málstaðinn. Þegar myllumerkið er notað á þær svörtu myndir sem verið er að birta í dag komi það í raun í veg fyrir að fólk hafi aðgengi að þeim mikilvægu upplýsingum sem netverjar hafa verið að birta síðustu vikuna. Þeir sem vilji taka þátt ættu því frekar að notast við myllumerkið #BlackOutTuesday.