Mikið vatn rann um götur San Salvador þegar óveðrið gekk þar yfir. Mynd: EPA-EFE - EFE
Að minnsta kosti tuttugu fórust þegar óveðurslægðin Amanda gekk yfir Mið-Ameríku um helgina.
Mest varð manntjónið í El Salvador þar sem fimmtán fórust, en sjö er enn saknað. Þrír fórust í Hondúras og tveir í Gvatemala.
Gríðarleg úrkoma fylgdi óveðrinu og haft var eftir Nayib Bukele, forseta El Salvador, að rignt hefði sem svaraði um tíu prósentum af árlegri meðalúrkomu.
Lægðin var í gærkvöld við vestanverðan Yucatanskaga, en búist er við að hún færist í aukana á ný.