Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kópurinn Kári kominn á heimaslóðir

Mynd:  / 
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn fékk kóp í fóstur þann 17. janúar síðastliðinn. Eftir að hlúð var að kópnum í nokkrar vikur var honum sleppt í hafið í Ísafjarðardjúpi og tók hann rakleiðis stefnuna á norðurströnd Grænlands þar sem hann er nú. Hægt er að fylgjast með ferðum hans á vefnum.

Lögreglan á Suðurnesjum óskaði eftir liðsinni Fjölskyldu- og húsdýragarðsins þegar að kópurinn hafði gert sig heimakominn í slippnum í Njarðvík. Við nánari skoðun kom í ljós að um Hringanóra var að ræða, var kópurinn bæði orðinn mjög horaður og með bakteríusýkingu þegar komið var með hann í garðinn. Eftir nokkurra vikna meðhöndlun í garðinum var kópnum, sem fékk nafnið Kári, sleppt og var hann þá orðinn feitur og pattaralegur. Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, segir að senditæki hafi verið komið fyrir á kópnum áður en honum var sleppt á Vestfjörðum og hægt sé að fylgjast með ferðum hans, sjá tengil hér fyrir neðan. Hins vegar mun senditækið fljótlega detta af honum enda aðeins límt á hann. „Hann tók strauið beint út úr Ísafjarðardjúpi og stefndi beint á sínar heimaslóðir á Grænlandi þar sem hann er núna. Merkið fer að detta af honum en það ætti að vera enn hægt að ná því. Hann er kominn langt norður í ísrönd þar sem hans heimakynni eru,” segir Logi.

Þegar COVID-19 faraldurinn skall á lokaði garðurinn og segir Logi að starfsfólk hafi allt snúið sér að dýrahirðingu í garðinum. Nú er hins vegar búið að opna garðinn á ný og er búið að vera fullt nánast allar götur síðan en hægt að hafa 400 manns í einu í garðinum sökum stærðar hans. Logi er bjartsýnn á sumarið en segir að þau hafi þó lent í smá vandræðum fjölskyldugarðsmegin þar sem erfitt hefur verið að fá ný tæki og varahluti í þau gömlu þar sem verksmiðjan er á Norður-Ítalíu. Nú eru verksmiðjurnar aftur búnar að opna og er von á bæði nýjum tækjum og starfsmönnum til að setja þau upp eftir 15. júní. 

Hægt er að fylgjast með ferðum kópsins Kára hér.

Nánar var rætt við Loga í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.