Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hjúkrunarfræðingar greiða atkvæði um verkfall

02.06.2020 - 17:28
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd:
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur ákveðið að boða til rafrænnar atkvæðagreiðslu meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu um verkfallsaðgerðir. Atkvæðagreiðslan, sem nær til rúmlega 2.500 hjúkrunarfræðinga, hefst klukkan átta í kvöld og lýkur á hádegi næsta föstudag.

Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir frá því í mars í fyrra. Í lok apríl felldu þeir kjarasamning sem gerður hafði verið milli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins. Nokkuð mjótt var á munum en tæplega 46 prósent samþykktu samninginn. Nokkur óánægja var með umsamin grunnlaun í samningnum sem þótti jafnframt óskýr. Þá töldu hjúkrunarfræðingar ekki nægilega hugað að hagsmunum dagvinnufólks.

Ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hefst að morgni mánudagsins 22. júní náist samningar ekki fyrir þann tíma. Verði af verkfalli hefur það áhrif á allar heilbrigðisstofnanir sem eru í rekstri ríkisins, auk annarra vinnustaða hjúkrunarfræðinga hjá hinu opinbera.

Í könnun sem samninganefnd hjúkrunarfræðinga gerði meðal félagsmanna sinna um miðjan síðasta mánuð kom fram að tveir af hverjum þremur eru tilbúnir til að grípa til aðgerða til að knýja fram kjarabætur. Tæpur helmingur, 49,6 prósent, sagðist tilbúinn í almennt verkfall og 32,5 prósent sögðust tilbúin í verkfall í formi yfirvinnubanns. 33,5 prósent sögðust hvorki vilja verkfall né yfirvinnubann.