Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fá endurgreitt með herkjum

02.06.2020 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Ferðaskrifstofur eru í einhverjum tilvikum farnar að endurgreiða þeim sem keypt höfðu utanlandsferðir í sumar. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna segir að neytendur hafi þurft að ganga hart á eftir endurgreiðslu.

Breki segir að fyrir helgi hafi borist þær fréttir að einhverjar ferðaskrifstofur væru farnar að endurgreiða neytendum. Á þetta bæði við um pakkaferðir og einstaka flugferðir.

„En ekki fyrr en að ferðalangar höfðu gengið fast á eftir því og þrýst verulega á að það yrði gert. Það er bara þannig að það þarf að ýta verulega á eftir þessu og þrýsta á að ferðaskrifstofurnar greiði. Einhverjir hafa stefnt ferðaskrifstofunum til þess að fá endurgreitt það sem þeim bar og það er náttúrlega hálf undarlegt ef það þarf að ganga hart eftir því að fá rétt sinn,“ segir Breki sem hvetur neytendur til að fylgja málum sínum fast á eftir. Hann segir málin sem hafa ratað inn á borð samtakanna skipta hundruðum og varði  á annað þúsund einstaklinga.

Fyrir þingi liggur frumvarp ferðamálaráðherra um að ferðaskrifstofum beri að bæta neytendum ferðir sem ekki eru farnar með inneignarnótu í stað endurgreiðslu. Það frumvarp hefur í all nokkurn tíma verið í nefnd eftir fyrstu umræðu og Breki á ekki von á því að það verði tekið alla leið.  „Þetta frumvarp, það eru flestir sammála um að það gangi gegn stjórnarskránni og Alþingi fer ekki að samþykkja frumvarp sem gerir það.“