
Álftir gerðu uppreisn gegn dróna
Álftin er friðuð hér á landi og því má ekki skjóta hana. Bændur hafa lengi kallað eftir því að fallið verði frá þeirri friðun, að minnsta kosti þar sem hún veldur tjóni á ræktunarlandi.
Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að halda álftum og gæsum úr ræktarlandi. Ein aðferð er að notast við dróna og reyna að reka þær upp af túninu yfir á önnur svæði. Sú aðferð virðist skila nokkrum árangri, en álftirnar á Bjarnastöðum í Húnavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu sneru bökum saman á dögunum og lögðu til atlögu við smalann og höfðu hann undir eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi sem Bjarni Kristinsson, bóndi á Bjarnastöðum tók.
Bjarni segir að tjónið á drónanum sé óverulegt en hann hafi sennilega gerst of nærgöngull við álftirnar með þessum afleiðingum. Álfti eru með mikið vænghaf og geta brugðist við ógn með því að ráðast á ógnina.