Rússar að kjörborðinu 1. júlí

01.06.2020 - 15:29
epa08445202 Russian President Vladimir Putin attends a meeting with Russian Defence Minister Sergei Shoigu (not pictured) via teleconference call at Novo-Ogaryovo state residence outside Moscow, Russia, 26 May 2020. Russian President Vladimir Putin announced 24 June as the date for the Victory Parade. Earlier the traditional troops parade as part of  the Victory Day Parade which is annually held on 09 May, was cancelled due to Covid-19 epidemic in Russia.  EPA-EFE/ALEXEI NIKOLSKY/SPUTNIK /KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA
Rússar ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar 1. júlí. Verði þær samþykktar gæti Vladimír Pútín, forseti landsins, setið í embætti eftir árið 2024. Yfirstandandi kjörtímabili lýkur þá. Samkvæmt nýgildandi stjórnarskrá mætti hann ekki bjóða sig fram á ný. Pútín hefur verið ýmist forseti eða forsætisráðherra síðan árið 1999. Þjóðaratkvæðagreiðslan átti að fara fram 22. apríl en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Stjórnarskrárbreytingarnar voru kynntar í janúar, á sama tíma og stokkað var upp í ríkisstjórn landsins. Dimitri Medvedev, þáverandi forsætisráðherra, fór frá og Mikhail Mishustin tók við. Auk þess voru gerðar nokkrar aðrar breytingar á ráðherraskipan. 

Pútín, sem verður 72 ára þegar þessu kjörtímabili lýkur árið 2024, hefur ekki útilokað að bjóða sig fram á ný. Rússneska þingið hefur þegar samþykkt stjórnarskrárbreytingarnar sem verða lagðar fyrir almenning í Rússlandi 1. júlí. Pútín sagði á fjarfundi með starfshópi um stjórnarskrárbreytingarnar í dag að svo virtist sem dagsetningin 1. júlí hentaði vel til þjóðaratkvæðagreiðslu. Meðal annarra atriða sem stjórnarskrárbreytingarnar myndu hafa í för með sér væri að þingið fengi aukin völd og að forsetaframbjóðendur þyrftu að hafa búið í Rússlandi í 25 ár. Þá yrðu lágmarkslaun yfir fátæktarmörkum og ellilífeyrir ætti framvegis að fylgja vísitölu og verðbólgu. 

Moscow Times greinir frá því að á sumum stöðum hefjist þjóðaratkvæðagreiðslan 25. júní og að fyrirkomulagið verði þannig til að koma í veg fyrir mannþröng á kjörstöðum. Það verður daginn eftir mikla skrúðgöngu hermanna í Moskvu og öðrum borgum sem farin verður af því tilefni að 75 ár eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Göngunni var frestað 9. maí vegna COVID-19 faraldursins. Fjölmiðillinn segir að stjórnmálaskýrendur telji að stjórnvöld hafi valið þessa tímasetningu til að tryggja sem besta kjörsókn. Skoðanakannanir á vegum ríkisins og einkafyrirtækja hafi sýnt að ýmist meirihluti Rússa eða naumur meirihluti sé fylgjandi breytingunum.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi