Röktu ferðir þingmanns í gegnum myndvinnsluapp

01.06.2020 - 21:06
Mynd með færslu
 Mynd: Tomáš Hustoles - Burst
Tilraun Norska ríkisútvarpsins, NRK, leiddi í ljós að hægt er að kaupa gögn, sem unnin eru upp úr persónuupplýsingum í öppum í farsímum og spjaldtölvum, og rekja þannig ferðir fólks. NRK gat rakið ferðir Lene Westgaard-Halle, þingmanns Høyre, síðasta haust og kortlagt þær allar. Þetta var hægt því hún var með myndvinnsluappið Perfect365 í síma sínum. Ekki þarf þó neinar upplýsingar um staðsetningu notenda til að appið geri sitt gagn.

Norska ríkisútvarpið keypti gögn úr 140.000 farsímum og spjaldtölvum í Noregi af breska fyrirtækinu Tamoco, sem fullyrti að gögnin væru ekki persónugreinanleg. Gögnin voru tekin saman úr fjölda forrita sem safna upplýsingum um ferðir notenda. „Það ætti ekki að vera hægt að fylgjast með fólki á þennan hátt,“ sagði Westgaard-Halle, þingmaður, í samtali við NRK. Hún er ein þeirra fjölmörgu sem NRK gat fundið út hver væri og sömuleiðis rakið ferðir hennar. 

NRK komst að því að hún hafði verið inni í byggingum þinghússins í Osló, í miðborginni í nágrenni við þinghúsið og heima hjá sér í bænum Larvik, í suðausturhluta Noregs. Þá var hægt að rekja ferðir þingmannsins frá Gardermoen-flugvelli til Svalbarða, þangað sem hún fór í vinnuferð í september vegna setu sinnar í orku- og umhverfisnefnd norska þingsins. 

Mynd með færslu
Lene Westgaard-Halle, þingmaður.  Mynd: Brnrk - Wikimedia Commons

Þingmaðurinn segir að það hafi komið sér mjög á óvart að hægt væri að rekja ferðir hennar með appinu Perfect365 þar sem engin þörf sé á því að appið viti um staðsetningu þeirra sem nota það. Þingmaðurinn hefur nú slökkt á þeirri stillingu sem gefur appinu upplýsingar um staðsetningu. Sjálf er hún með um 200 öpp í símanum sínum, þar á meðal eitt fyrir ljósin heima, annað fyrir bílinn og enn eitt fyrir ryksuguna. 

Fram kemur í umfjöllun NRK að norskir þingmenn fái fræðslu um mál sem þessi og að þeir séu hvattir til að vera á varðbergi. Í nýlegri skýrslu segir að norsk lögregluyfirvöld telji að njósnir gegn stjórnvöldum, þinginu og hernum séu meðal helstu ógna við þjóðaröryggi. 

Í Noregi hafa persónuverndaryfirvöld hafið rannsókn á Tamoco, breska fyrirtækinu sem seldi NRK gögnin, eftir umfjöllun um málið. Það sama hafa persónuverndaryfirvöld á Bretlandi gert. Linda Hofstad Helleland, ráðherra upplýsingamála í Noregi og flokksfélagi Westgaard-Halle, ætlar að fylgja málinu eftir innan ESB. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi