Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Norsku útrásarvíkingarnir reyndust frekir á fóðrum

01.06.2020 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd: NRK - Exit
Fjölmiðlanefnd hefur lagt 1,2 milljóna króna stjórnvaldssekt á RÚV fyrir að hafa haft norsku þættina Exit aðgengilega fyrir alla í spilara á vefnum ruv.is. Síminn kvartaði vegna málsins til nefndarinnar, óskaði eftir inngripi hennar og hvatti til hámarkssekta. RÚV hefur verið gert að fjarlægja þættina af vefnum fyrir 5. júní.

Fréttablaðið greindi fyrst frá ákvörðun Fjölmiðlanefndar. 

Þættirnir Exit fjalla um líf fjögurra norskra auðmanna og eru bannaðir börnum yngri en 16 ára. Eftir að kvörtun Símans barst var sett aðvörun í spilara RÚV, til bráðabirgða, þar sem fram kemur að efnið sé ekki við hæfi barna. Notandinn getur staðfest að hann sé eldri en 16 ára og getur þá horft á þættina. 

Samkvæmt lögum er aðeins heimilt að miðla efni sem er bannað börnum ef að tryggt er, með viðeigandi tæknilegum ráðstöfunum, að börn hafi ekki aðgang að efninu. Fjölmiðlanefnd telur brotið alvarlegt

Fjölmiðlanefnd hefur verið í samskiptum við fulltrúa RÚV á árinu varðandi varanlega lausn og segir í ákvörðun nefndarinnar að verkið hafi tafist af ýmsum ástæðum, svo sem verkföllum í skólakerfinu, orlofi, fjarveru frá vinnu og aðstæðum tengdum COVID-19 faraldrinum. Ýmis verkefni honum tengd hafi verið sett í forgang. Þá hafi einnig komið upp tæknileg vandamál. Fram kemur í úrskurðinum að aðgangsstýringin verði væntanlega tilbúin fyrir lok þessa mánaðar.