Ljót og erfið mynd sem leggur áherslu á þolandann

Mynd: IFC / IFC

Ljót og erfið mynd sem leggur áherslu á þolandann

01.06.2020 - 10:00

Höfundar

Hryllingsmyndin Næturgalinn er erfið áhorfs en bæði merkileg og mikilvæg að mati kvikmyndarýnis Lestarinnar á Rás 1. Hún er líka skýr sönnun þess hvað Jennifer Kent er spennandi leikstjóri, en hún vakti mikla athygli fyrir frumraun sína The Babadook.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Kvikmyndahúsin eru nú að vakna til lífsins að nýju, þótt vissulega stefni í fátæklegri bíómenningu, ef Bíó Paradís fær ekki að halda áfram, en þær dyr standa því miður enn lokaðar. Dagskráin í kvikmyndahúsunum fer þó hægt af stað og fyrir þennan pistil sótti ég efni í sjónvarpið heima, ekki stóra tjaldið, og horfði á mynd sem ég hef beðið spenntur eftir að sjá síðan hún olli talsverðum usla á kvikmyndahátíðum í fyrra, en náði einhverra hluta vegna ekki í bíó hér á landi og laumaðist inn á leigurnar fyrir rúmum mánuði. Næturgalinn, eða The Nightingale, er nýjasta mynd ástralska leikstjórans Jennifer Kent, sem vakti mikla athygli fyrir frumraun sína, The Babadook, árið 2014.

Sú mynd er ein ef bestu hrollvekjum síðari ára og í kjölfar vinsældanna fékk Kent ótal tilboð um að gera framhaldsmynd, jafnvel heila seríu í kringum aðalófreskjuna, en hún hafði engan áhuga á slíku og vildi ólm forðast gróðamaskínuna til að geta haldið áfram að gera persónulegar kvikmyndir. Babadook var líka afar persónuleg hrollvekja, í þeim skilningi að hún var knúin áfram af sterkri persónusköpun og tókst að blanda listilega vel saman draugasögu og sálfræðilegri stúdíu á konu sem hefur gengið í gegnum hræðilega sorg og tráma. Næturgalinn er líka saga um konu að kljást við sorg og tráma, en áherslurnar allt aðrar og nálgunin á hrylling gæti vart verið ólíkari.

Í stað þess að taka tilboðunum sem flæddu til hennar eftir að Babadook sló í gegn, segist Kent hafa sökkt sér ofan í sögu og menningu innfæddra í Tasmaníu. Upp úr því kviknaði hugmyndin að Næturgalanum, en sögusviðið er Tasmanía árið 1825 – eða Van Diemen‘s Land, eins og það var kallað þá. Við kynnumst söguhetjunni Claire Carrol í upphafi myndar að strita við þjónustustörf með ungbarn á bakinu. Hún er írskur fangi undir hæl enska hersins og vinnur ásamt eiginmanni sínum á útvarðarstöð við jaðar óbyggðanna. Herinn er í stríði við frumbyggjana, ef stríð má kalla – útrýming eflaust betra orð, nýlendustefnan í miskunnarlausu hámarki og hið svokallaða Svarta stríð, The Black War, að hefjast á eyjunni, sem stóð yfir frá 1825-1832 og gerði nánast út af við samfélag Tasmaníubúa.

Kent vann myndina í nánu samstarfi við öldunga í Tasmaníu til að geta gert menningu innfæddra góð skil, enda flókið og erfitt efni og bæði áhugavert og aðdáunarvert val sem næsta skref eftir Babadook. Hún heldur sig við hryllinginn, því hann er auðvitað samofinn söguefninu, en hryllingurinn birtist á mun kuldalegri og hrottafengnari hátt í Næturgalanum heldur en Babadook. Kent tvinnar saman sögu hinnar írsku Claire sem þarf að þola hræðilegt ofbeldi og missi í upphafi myndar og sögu hins innfædda Billy sem hefur misst bæði fjölskyldu og land. Saman halda þau í hefndarför í gegnum óbyggðirnar og á leiðinni tengjast þau djúpum og órjúfanlegum böndum.

 

Eins og heyra mátti í þessu broti ríkir ákveðin stéttaskipting á milli aðalpersónanna, að minnsta kosti til að byrja með – Claire kallar hann, fullorðinn manninn, strák, rétt eins og hermennirnir gera,   og beinir að honum byssu á ferðalaginu. En kúgun þeirra er skyld, misindismennirnir þeir sömu, ábyrgir fyrir ofbeldi gegn þeim báðum, á ólíka vegu, og sú samtvinnun er líka kjarni sögunnar. Kent byrjaði víst að skrifa handrit að ástarsögu sem tók fljótlega stakkaskiptum, enda er þetta fjarri því að vera hefðbundin ástarsaga og alls enginn rómans í kringum aðalpersónurnar tvær – en vissulega er það ástin, vináttan, vonin og samhjálpin sem ræður ríkjum til að berjast gegn myrkrinu og ljótleikanum sem eltir parið á röndum. Þetta endurspeglast í endurteknu myndmáli um fugla, söng og flug – Claire er látin syngja fyrir hermennina á stöðinni og kölluð „Næturgalinn“, Billy er kallaður Mangana af sínu fólki, „Svartfuglinn“, og syngur sjálfur á ferðalaginu. Söngurinn gegnir jafnframt lykilhlutverki á lokaspretti myndarinnar og umbreytist þannig í sterkt tákn fyrir mannsandann til móts við harðneskjulegt umhverfi myndarinnar.

Áherslan á sönginn verður þeim mun skýrari í ljósi þess að engin kvikmyndatónlist er til staðar í myndinni, að minnsta kosti ekki svo ég hafi tekið eftir, sem ljær ofbeldinu líka aukið raunsæi og á sinn þátt í kuldalegri framsetningu leikstjórans á þeim senum. Kent neitar okkur um þá tilfinningastjórnun sem kvikmyndatónlist býður upp á en notar þess í stað afar markvissa myndatöku og sjónarhorn til að leggja áherslu á upplifun þolandans. Þau atriði eru erfið áhorfs og eiga að vera það, enda er Næturgalinn bæði ljót og erfið mynd, því verður ekki neitað. Hvað það varðar er áhugavert að líta til þess að leikstjórinn hafi áður hlotið athygli fyrir hrollvekju og hvernig vald hennar á hryllingi birtist hér á allt annan hátt. Í Babadook var hann yfirnáttúrulegur, táknrænn og óræður, en hér er hryllingurinn bæði raunsæislegur og sögulegur og Kent nær að gera honum sterk og góð skil án þess þó að velta sér upp úr ofbeldinu.

Áherslan er á persónurnar, leikinn og þrúgandi andrúmsloft, umfram grótesku eða blóðþorsta, og Kent passar sig að upphefja aldrei ofbeldið, ekki einu sinni þegar kemur að því að ná fram hefndum. Næturgalinn er hluti af langri hefð hefndarmynda um konur sem verða fyrir kynferðisofbeldi og elta uppi árásarmennina, en Kent snýr upp á þá hefð á ýmsa vegu og notar söguna auk þess til að fjalla um sögulegt samhengi feðraveldis og nýlendustefnu og til að fjalla óbeint um nauðgunarmenningu okkar samtíma og samtvinnun kúgunar á jaðarhópum.

Ég hef heyrt gagnrýni á myndina þess efnis að saga Billys sé notuð til að ýta undir sögu Claire og fái ekki nóg pláss sem sjálfstæður þáttur, og að Kent gerist þannig sek um ákveðna stéttaskiptingu í handriti sínu, og það stuðaði mig dálítið í fyrri hluta myndar, sem sagt í atriðum þegar Claire setur fram ákveðna heimtingu á því að Billy eigi að hjálpa henni einmitt vegna þess að hann hafi sjálfur misst allt, og Billy virðist ætla að festast í annars konar þjónshlutverki hjá henni. En slík atriði eru ekki endilega slæm, heldur flækja söguna og gera togstreituna á milli persónanna dýpri fyrir vikið. Auk þess fær Billy stærra hlutverk eftir því sem á líður og finnur sína eigin leið til að gera upp sakirnar við hermennina.

Ég verð þó að játa að ég hnaut endrum og sinnum um samtöl sem færðu hið augljósa í orð á fremur klunnalegan máta, sem er kannski áhætta í sögu sem ber með sér svo þungan boðskap. Mér er sérstaklega hugsað til atriðis þar sem ákveðin persóna brestur í grát við matarborð og allir við borðið skilja hvers vegna, rétt eins og við áhorfendur skiljum hvers vegna, en engu að síður er persónan látin segja það innan um grátstafina, sem gerði að verkum að ég fann fyrir handritinu skína í gegn. Með öðrum orðum á myndin það til að verða heldur bókstafleg á köflum og ég hefði gjarnan viljað aðeins fleiri þagnir, en það er smávægilegt kvörtunarefni miðað við heildarmyndina, sem er erfið áhorfs en bæði merkileg og mikilvæg og skýr sönnun þess hvað Jennifer Kent er spennandi leikstjóri.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Dæmisaga og Draugabær í heimabíói

Kvikmyndir

Litlir hrútar á lækjarbakka

Kvikmyndir

Snjöll og áhugaverð nálgun á ævintýraformið

Kvikmyndir

Farsakennd fyllirísferð sem fjarar út þegar á líður