Blaðamaður New Yorker fékk undanþágu fyrir Íslandsferð

01.06.2020 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Elizabeth Kolbert, blaðamaður á bandaríska blaðinu New Yorker, fékk undanþágu frá því að fara í tveggja vikna sóttkví vegna greinar sem hún skrifaði fyrir blaðið. Hún fékk þó nei hjá utanríkisráðuneytinu en eftir að hafa leitað til Kára Stefánssonar, forstjóra deCode, breyttist nei-ið fljótlega í já. „Að sjá Íslendinga sitja þétt saman á kaffihúsum og veitingastöðum er jafn framandi fyrir ferðamenn og eldfjöllin og hvalaskoðunarferðirnar.“

Þetta kemur fram í býsna skemmtilegri grein sem Kolbert skrifar á vef New Yorker og birtist á vef blaðsins. „Hvernig Ísland sigraðist á kórónuveirunni: Landinu tókst ekki bara að fletja út kúrfuna heldur útrýmdi henni.“

Þar er rætt við kunnugleg andlit í baráttu Íslands við COVID-19: Ævar Pálma Pálmason, yfirmann rakningarteymisins, Kára Stefánsson, forstjóra deCode,  Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Ölmu Möller, landlækni.

Í greininni kemur meðal annars fram að ung kona, sem greindist með COVID-19, hafi farið svo víða skömmu áður að nærri 200 manns þurftu að fara í sóttkví. Hún er sögð hafa farið á kóræfingu, æft leikrit og farið í tíma. Alma Möller segir einnig frá því af hverju hún ákvað strax að taka farsóttina alvarlega; þegar hún sá myndir af veiku fólki frá Wuhan. 

Kolbert rekur það hvernig henni tókst að fá undanþágu frá tveggja vikna sóttkví sem blaðamaður. Hún reyndi fyrst við utanríkisráðuneytið en fékk strax nei. Hún sendi í framhaldinu nokkra tölvupósta og hringdi ófá símtöl og náði loks sambandi við Kára Stefánsson. Og hann sagðist ætla að kippa málinu í liðinn.  

Nokkrum dögum seinna fékk hún svo undanþáguna en með mjög stífum reglum. Henni var til að mynda bannað að nota almenningsklósett og gert að fylgja þeim reglum sem settar voru þegar hún ætlaði að taka viðtal við opinberan starfsmann eða forsvarsmann einkafyrirtækis.

Til að mynda átti alltaf að upplýsa forstjóra opinbera fyrirtækisins um viðtalið jafnvel þótt hann væri ekki sjálfur til viðtals. 

Um leið og Kolbert lenti á Keflavíkurflugvelli, eftir að hafa rætt við unnustu íslensks knattspyrnumanns í fluginu sem barmaði sér yfir því að geta ekki hitt hann fyrstu tvær vikurnar, stóð hún frammi fyrir erfiðum valkosti.  Mátti hún versla í fríhöfninni?  Sársoltin tók hún þá ákvörðun að hún mætti það og reyndist kvöldmaturinn þetta kvöld vera bjór og lakkrís.

Kolbert lýsir sínum fyrsta fundi og Kára Stefánssonar þegar hann kom að sækja hana á Porsche-jeppanum. „Massachusetts er sennilega leiðinlegasti staður jarðar,“ svaraði Kári þegar Kolbert upplýsti hvaðan hún væri. Og Alma landlæknir segir Kolbert frá því að hún hafi vitað það í febrúar að Bandaríkin væru í vandræðum. 

Í greininni kemur jafnframt fram að í janúar hafi menn áttað sig á því að ekki væri til nóg af hlífðarfatnaði á Landspítalanum og því farið strax í að útvega slíkan búnað. 

Grein Kolbert í heild sinni er hægt að lesa hér.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi