„Við ætlum bara að verða Íslandsmeistarar“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Við ætlum bara að verða Íslandsmeistarar“

31.05.2020 - 19:30
Pepsi Max-deild kvenna hefst eftir tvær vikur. Í fyrra var deildin tveggja hesta kapphlaup en bikarmeistarar Selfoss stefna á að veita Val og Breiðablik samkeppni. Gunnar Birgisson brá sér austur fyrir fjall í vikunni og tók hús á liði Selfoss.

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu hefur náð eftirtektarverðum árangri síðustu ár. Selfyssingar komust upp úr fyrstu deildinni sama ár og Alfreð Elías Jóhannesson tók við þjálfun liðsins árið 2017. Strax árið eftir endaði liðið í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar með ungt og spennandi lið.

„Við höfum sýnt það að við erum alveg óhrædd við að gefa okkar stelpum sénsinn, ef þær eru nógu góðar skiptir ekki máli hvað þær eru gamlar. Sértu nógu góður ertu velkominn á Selfoss, það er bara svoleiðis.“ segir þjálfarinn Alfreð.

Góð blanda ungra leikmanna og þeirra sem eldri eru

Eftir það var ákveðið að spenna bogann enn frekar og bæta reynslumiklum leikmönnum í hópinn. Hólmfríður Magnúsdóttir skrifaði undir hjá liðinu á síðasta ári og fyrir þetta tímabil bætast fleiri reyndar landsliðskonur við, Dagný Brynjarsdóttir og nú síðast Anna Björk Kristjánsdóttir. Samtals eiga þær þrjár 243 A-landsleiki að baki. Selfoss heldur engu að síður áfram að styðja vel við ungu leikmennina sem koma úr akademíu framhaldsskólans, FSu, en nú er stefnt hærra en áður.

„Ég náttúrulega þekki þessar stelpur vel þar sem ég er með akademíuna sjálfur hérna á Selfossi. Að fá viðbót af reynslumiklum mönnum sem hafa verið í atvinnumennskunni úti hjálpar okkur mikið - ekki bara í leikjum heldur í æfingum, hvernig er best að hugsa um sig og annað slíkt.“ segir Alfreð.

„Um leið og ég talaði við Alla þjálfara þá fannst mér stemningin og hugurinn í þessu liði vera mjög spennandi. Það er stefnt hátt og ég vil vera í liði sem stefnir á að vinna titil,“ segir nýliðinn Anna Björk Kristjánsdóttir.

„Það hafa ekki margir leikmenn annars staðar frá þorað að koma í Selfoss. Ég var búin að vera í Val í sjö ár og kem í Selfoss 2015 sem var sjokker fyrir alla og svo er Anna Björk að gera það sama núna. Þannig að vonandi þora leikmenn í framtíðinni að taka skrefið sem er best fyrir þær fótboltalega en ekki vinkonulega eða hvað er auðveldast að gera.“ segir Dagný Brynjarsdóttir.

„Það er náttúrulega miklu meiri samkeppni, finnst mér, eftir að við bættum í hópinn. En það voru mjög mikil gæði áður en allir nýju leikmennirnir komu,“ segir hin tvítuga Barbára Sól Gísladóttir sem er á meðal leikmannanna sem komu í liðið í gegnum akademíuna.

Stefnan sett á titilinn

Síðasta tímabil var það besta í langan tíma hjá Selfyssingum. Liðið endaði í þriðja sæti í úrvalsdeildinni auk þess að vinna bikarmeistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins. Sá árangur stimplaði Selfoss inn sem eitt af stærstu liðunum hér á landi. En þýðir þessi titill og styrking liðsins að Selfyssingar ætlist til meira af liðinu í ár?

„Já, því að við erum búnar að setja þessa pressu á okkur sjálfar. Sem er bara gott fyrir okkur stelpurnar. Þegar ég kom hingað var kannski ekki þessi trú og nú er bullandi sjálfstraust í liðinu. Nú getum við vonandi byrjað mótið eins og við enduðum í fyrra,“ segir Hólmfríður Magnúsdóttir.

Fyrsti leikur Selfoss á Íslandsmótinu er við Fylki 13. júní næstkomandi. Hefur Selfoss það sem til þarf að berjast við sterkustu lið landsins og jafnvel að verða Íslandsmeistari?

„Ég held að ef við náum að nýta tímann vel fram að móti, spilum vel og stillum okkur saman, því nú er ég til dæmis ný, Dagný er ný og við erum með tvo nýja útlendinga, þannig að við þurfum dálítið að stilla okkur saman. En ég held að ef að allt gengur eftir og allir stefna í sömu átt þá held ég alveg klárlega að við getum endað á toppnum,“ segir Anna Björk.

„Við ætlum að reyna að gera betur. Það segir sig sjálft að við ætlum að enda í þessu fyrsta sæti, við ætlum bara að verða Íslandsmeistarar,“ segir Alfreð.

Innslagið má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.