Sancho sendi skilaboð í stórsigri

epa08456508 Jadon Sancho of Borussia Dortmund celebrates scoring the 0-2 goal with a 'Justice for George Floyd' shirt during the German Bundesliga soccer match between SC Paderborn 07 and Borussia Dortmund at Benteler Arena in Paderborn, Germany, 31 May 2020.  EPA-EFE/LARS BARON / POOL CONDITIONS - ATTENTION:  The DFL regulations prohibit any use of photographs as image sequences and/or quasi-video.
 Mynd: EPA-EFE - GETTY IMAGES EUROPE POOL

Sancho sendi skilaboð í stórsigri

31.05.2020 - 17:50
Borussia Dortmund vann 6-1 sigur á botnliði Paderborn á Benteler-vellinum í Paderborn í dag. Líkt og í leik Mönchengladbach við Union Berlín fyrr í dag var George Floyd í sviðsljósinu.

Fyrir leik var Dortmund tíu stigum frá toppliði Bayern Munchen eftir sigur þeirra síðarnefndu á Fortuna Dusseldorf í gær. Þeir gulu höfðu því möguleika á að minnka bilið í sjö stig. Paderborn sat á botni deildarinnar með 19 stig, níu stigum frá öruggu sæti.

Óhætt er að segja að leikur liðanna hafi verið bragðdaufur framan af. Sóknartilburðir liðanna voru aumlegir í fyrri hálfleik sem og varnarleikurinn. Aðeins ein aukaspyrna var dæmd vegna leikbrots í fyrri hálfleiknum sem er fáheyrt.

Eftir tíðindalítinn og markalausan fyrri hálfleik lifnaði hins vegar yfir leiknum í þeim síðari. Belginn Thorgan Hazard kom Dortmund í forystu á 54. mínútu og Jadon Sancho tvöfaldaði forystuna þremur mínútum síðar. Sancho fór þá úr treyjunni og sýndi bol sem ritað var á „Justice for George“ eða „Réttlæti fyrir George“ þar sem vísað er til George Floyd sem var myrtur af lögreglumanni í Minnesota í Bandaríkjunum á mánudag. Bandaríkjamaðurinn Weston McKennie bar sömu skilaboð á fyrirliðabandi sínu í tapi liðs hans Schalke fyrir Werder Bremen í gær og Marcus Thuram kraup á hné til stuðnings baráttu svartra í Bandaríkjunum í sigri Gladbach á Union Berlín fyrr í dag.

Uwe Huenemeier lagaði stöðuna fyrir Paderborn á 72. mínútu en Sancho skoraði sitt annað mark og þriðja mark Dortmund tveimur mínútum síðar. Bakverðirnir Achraf Hakimi og Marcel Schmelzer skoruðu þá sitt markið hvor á síðustu fimm mínútum venjulegs leiktíma áður en Sancho innsiglaði þrennu sína og 6-1 sigur Dortmund í uppbótartíma.

Eftir mörk sín í dag hefur Sancho skorað 17 mörk og lagt upp 16 til viðbótar á leiktíðinni. Hann er fyrsti Englendingurinn sem afrekar að skora og leggja upp yfir 15 mörk á einni og sömu leiktíðinni frá því að Matthew Le Tissier gerði það með liði Southampton í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 1994-95.

Dortmund er þá með 60 stig í öðru sætinu, sjö stigum frá toppnum en fallið vofir yfir liði Paderborn sem situr sem fastast á botni deildarinnar.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Thuram heiðraði minningu Floyd í sigri Gladbach

Fótbolti

Fyrirliði Schalke kallar eftir réttlæti í máli Floyd