„Ég er ofsalega lukkulegur að eiga svona förunaut“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég er ofsalega lukkulegur að eiga svona förunaut“

31.05.2020 - 08:58

Höfundar

Það getur verið erfitt að vera vinsæll óperusöngvari og mikið í burtu frá fjölskyldunni að sögn Kristjáns Jóhannssonar. Konan hans hefur þó alltaf lagt sig fram við að hughreysta hann í fjarverunni og eitt sinn, þegar hann fylltist söknuði á hótelherberginu sínu einn í New York um árið, barst óvænt símtal úr móttökunni.

Óperusöngvarinn Kristján Jóhannsson var aðeins átta ára þegar hann söng fyrst opinberlega, Heims um ból, skjálfandi á beinunum fyrir sveitunga sína á Akureyri á aðventunni. Þeir sem á hlýddu áttuðu sig líklega strax á að þarna væri á ferðinni efnilegur söngvari. Hann fór síðar að syngja í skólakórnum en var ekki vinsæll hjá kórstjóranum sem lamdi hann í höfuðið með nótnahefti fyrir að vera með háreysti á æfingum. „Ég fór heim hundfúll og sagði við mömmu: Þessi kelling var að berja mig fyrir að syngja, ég nenni þessu ekki,“ rifjar hann upp. En hann hélt áfram að mæta og áttaði sig fljótt á því sjálfur að hann hefði hæfileika umfram meðal söngfuglinn. Hann tók sér þó nokkurra ára pásu frá söngnum þegar hann var á unglingsaldri og fór að einbeita sér að öðru. „Það voru skellinöðru- og stelpuárin. Það var ekki fyrr en um 18 ára sem ég fór aftur af stað,“ segir Kristján Jóhannsson óperusöngvari sem var gestur í Mannlega þættinum á Rás 1.

Jóhann bróðir Kristjáns dró hann með sér í karlakór og fljótlega upp úr því kynnist Kristján Sigurði Demetz, óperusöngvara og söngkennara. „Það var mitt mesta gæfuspor. Hann tekur mig til hliðar og segir Kristján minn, ef mér skjátlast ekki er eitthvað sem við þurfum að gera,“ segir Kristján. „Ég skráði mig hjá karlinum í söng um tvítugt.“ En þegar Sigurður lagði til við söngvarann að hann flytti til Ítalíu að læra söng þar kom hik á hann. „Ég var ráðsettur maður, tveggja barna faðir, byrjaður að reka fyrirtæki sem tengdafaðir minn hafði dáið frá. Ég var bara helvíti brattur á þessum árum.“ En hann lét til leiðast, fluttist til Ítalíu 27 ára og freistaði þess að láta drauminn rætast. Það var hins vegar ekki alltaf auðvelt að vera fátækur námsmaður þar. „Ég var búinn að gera plan til að geta lifað af í tvö ár. Svo átti ég mjög góða vini og kunningja sem höfðu trú á þessu. Ef ég var kominn algjörlega á heljarþröm var sent telegram til Íslands: Hjálp, ég á ekki fyrir húsaleigu og mat. Í gamla daga var það þannig að fólk kom og hjálpaði mér,“ segir hann. Hann þurfti þó ekki lengi að skrimta, eftir um tvö ár var hann byrjaður að syngja opinberlega og fá greitt fyrir. „Þetta var ævintýri,“ segir hann.

Hann flutti til Monte Carlo með fjölskyldunni og bjó þar í ellefu ár. „Sumrin voru yndisleg og börnin elskuðu þau. Við fengum mikið af fólki í heimsókn en ég var mikið „on the road“,“ segir hann og viðurkennir að það hafi stundum verið erfitt að vera í burtu frá eiginkonunni. „Við gerðum samkomulag um að vera ekki í burtu frá hvort öðru í meira en þrjár vikur. Annaðhvort reyndi ég að komast heim eða hún til mín,“ segir hann. Og þau lögðu sig fram um að hughreysta hvort annað þegar aðskilnaðurinn var erfiður. „Í New York hringir þessi elska í mig og ég er að væla yfir hvað þetta sé ómögulegt. Ég er með íbúð nálægt Lincoln Center en ég sakna hennar svo rosalega að ég verð að gera eitthvað í þessu,“ segir hann. Kristján fékk eftir nokkra daga í stórborginni óvænt símtal úr móttökunni upp á hótelherbergi. „Það er sagt: Jóhannsson það er pakki til þín. Ég fer niður og þá stendur þessi elska í forstofunni,“ segir hann. „Við gerðum þetta mjög skemmtilega. Alls kyns uppákomur hjá okkur og ég er ofsalega lukkulegur að eiga svona förunaut. Þetta er eitt stórt ævintýri.“

Rætt var við Kristján Jóhannsson í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Þetta áfall breytti mér“

Airwaves

„Það var of snemmt að byrja að drekka 11 ára“

Menningarefni

„Ég stend mig enn að því að tala við pabba“

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“