Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bandaríkjaforseti vill að G7 verði G11

31.05.2020 - 01:16
Erlent · Donald Trump · G7
Mynd með færslu
 Mynd: Jesco Densel - AFP / Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að fresta G7-ráðstefnu helstu iðnríkja heimsins til hausts. Ætlunin var að fulltrúar þeirra hittust á fjarfundi í júní, vegna kórónuveirufaraldursins.

Ríkin sem mynda G7 eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan, Kanada og Þýskaland. Rússum var vísað úr því sem áður hét G8 fyrir sex árum þegar þeir innlimuðu Krímskaga.

Söguna af semeiginlegu fundahaldi helstu iðnríkja heims má rekja aftur til ársins 1975 þegar Valéry Giscard d’Estaing þáverandi Frakklandsforseti boðaði til ráðstefnu þeirra sex helstu. Fulltrúar iðnríkjanna hafa fundað árlega til að stilla saman strengi sína á efnahagssviðinu.

Trump hefur nú í hyggju halda viðamikla ráðstefnu í september og ætlar að bjóða fleiri ríkjum að taka þátt.

Hann kveður hópinn orðinn heldur á eftir tímanum og vill fá Rússa að borðinu á ný auk Suður Kóreu, Ástralíu og Indlands.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV