Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það ætlar enginn að gera neitt fyrir þessa drengi“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það ætlar enginn að gera neitt fyrir þessa drengi“

30.05.2020 - 11:10

Höfundar

Kynþáttahatur í Bandaríkjunum og dularfullt morðmál frá árinu 1964 er til umfjöllunnar í kvikmyndinni Missisippi Burning. Tinna Björt Guðjónsdóttir leikkona varð sár og reið þegar hún horfði á myndina, sem byggir á sönnum atburðum. Hún er sýnd í Bíóást á RÚV í kvöld klukkan 22:15.

Þegar Tinna Björt Guðjónsdóttir sá kvikmyndina Missisippi Burning í fyrsta skipti var hún táningur sem tengdi ekki við myndina en fannst hún sorgleg. Þegar hún horfði á hana aftur nokkrum árum síðar varð hún sár og reið. „Það er enn sama óréttlæti í gangi og er í þessari mynd, að gerast í dag árið 2020. Það er náttúrulega bara hræðilegt,“ segir hún. Myndinni er leikstýrt af Alan Parker og byggir hún á sönnum atburðum þegar þrír aktívistar, sem allir börðust fyrir mannréttindum í Suðurríkjunum, hurfu sporlaust árið 1964. „Öllum er sama um þetta hvarf, það ætlar enginn að gera neitt fyrir þessa drengi.“

Þeir Gene Hackman og Willem Dafoe fara með hlutverk tveggja alríkislögreglumanna sem rannsaka hvarf drengjanna og komast að ýmsu óvæntu. „Þeir finna strax að þeir eru ekki velkomnir og það er enginn að fara að hjálpa þeim. Þeir kíkja á skýrslurnar og átta sig fljótlega á því að það vantar mikið upp á,“ segir Tinna. Rannsóknin leiðir lögreglumennina meðal annars á slóðir haturssamtakanna Ku Klux Klan sem tengjast málinu. „Á þessum tíma er mikið kynþáttamisrétti í gangi í Suðurríkjunum og maður sér það vel í myndinni,“ segir hún.

Það sem stendur upp úr í myndinni að mati Tinnu samband lögreglumannanna og hvernig það þróast. „Þeir byrja ekki sem bestu vinir, er ólíkar löggur með ólíkar aðferðir. Einn er yngri og annar eldri og sá sem er eldri er yfirmaður. Það er smá valdabarátta en gaman að fylgjast með sambandinu og hvernig þeir átta sig á að þeir verða að vinna saman til að leysa þetta mál,“ segir hún. Myndin er þung en afar góð samkvæmt Tinnu sem hefur, síðan hún sá myndina aftur, lesið sér til um atburðina sem hún byggir á. „Þegar ég fór að kynna mér málið komst ég að því að málið er opnað aftur árið 2002 og árið 2005 er maður handtekinn fyrir aðild að hvarfinu,“ segir Tinna að lokum. „Það er mikilvægt að horfa á svona myndir og búa þær til. Hún er erfið en stundum er sannleikurinn bara erfiður.“

Missisippi Burning er á dagskrá klukkan 22:15 í kvöld.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Eðlilegt að brotna saman eftir mikið súkkulaðiát

Kvikmyndir

Næstbesta bíómyndin gerð eftir bók Stephens King