Óttast meiri vígbúnað eftir úrsögn afvopnunarsaminga

30.05.2020 - 07:31
Mynd með færslu
Rússnesk flugskeyti og skotpallar á hersýningu í Sankti Pétursborg í september 2017. Mynd:
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur dregið Bandaríkin úr þremur afvopnunarsamningum síðan hann var kosinn forseti - og reyndar fleiri samningum ef út í það er farið. Rússar koma að öllum þessum samningum, en ástæðuna fyrir úrsögninni má aðeins að litlum hluta rekja til þeirra. Trump er þar að hugsa fyrst og fremst um samkeppni við annað stórveldi. En þessi atburðarrás getur líka haft áhrif í alþjóðasamfélaginu.

Trump tilkynnti í síðustu viku að Bandaríkjamenn ætluðu að draga sig út úr samningi um gagnkvæma lofthelgi, Open Skies Treaty. „Við erum í góðu sambandi við Rússa og höfum til að mynda unnið saman í olíumálum. Rússar hafa hins vegar ekki staðið við samninginn og þangað til þeir gera það drögum við okkur út. En það eru góðar líkur á því að við gerum nýjan samning eða gerum eitthvað til að koma þessum samningi saman aftur, sagði Trump.“

Rekja má upphaf þessa samnings aftur til ársins 1955 þegar Dwight D. Eisenhower, þáverandi forseti Bandaríkjanna, lagði fram tillögu um gagnkvæma opnun lofthelgi (sjá myndband hér að neðan). Þessu höfnuðu Sovétmenn á þeim tíma, og það studdi þá fullyrðingar Bandaríkjanna um að það væri ekki allt upp á borðinu í vígbúnaði Sovétríkjanna.

Árið 1989, um það leyti sem járntjaldið féll, tók George Bush eldri, sem þá var Bandaríkjaforseti, tillöguna aftur upp. Það leiddi til þess að samningurinn var undirritaður árið 1992 og tók gildi tíu árum síðar.

Tryggir aðgengi að upplýsingum

Þrjátíu og fjögur ríki eiga aðild að samningnum, þar á meðal Ísland, auk þess sem eitt ríki, Kirgistan, hefur undirritað sáttmálann en ekki lögfest hann. Samningurinn gengur út á að ríkin innan hans geti farið í óvopnað könnunarflug yfir annað ríki til að kanna herafla og hernaðaraðgerðir þeirra, svo sem hreyfingar herafla, heræfingar og vígbúnað. Það þarf þó að tilkynna með þriggja sólarhringa fyrirvara.

Þessar flugvélar mega vera með skynjurum sem sjá bæði hreyfingar herafla og búnað. Allar aðildarþjóðir samningsins hafa aðgang að þeim upplýsingum sem er safnað í þessu flugi, óháð því hver safnar þeim. Í því felst öryggi samningsins - því meira sem þjóðirnar vita um aðgerðir hver annarrar, því minni eru líkurnar á að til átaka komi milli þeirra.
Þessi úrsögn Bandaríkjaforseta, sem kemur reyndar ekki til framkvæmdar fyrr en eftir hálft ár, er ekki alveg úr lausu lofti. Bæði Bandaríkjamenn og NATO hafa árum saman sakað Rússa um að standa ekki við samninginn.
Þeir hafi ekki leyft könnunarflug í öllum tilvikum, en á sama tíma nýtt sér til hins ítrasta að mega kanna hernað annarra ríkja. New York Times segir að Trump hafi orðið sérstaklega reiður yfir því að könnunarflug Rússa hafi í minnst einu tilviki farið yfir Washington og golfvöll hans sjálfs í New Jersey sumarið 2017.

Marshall Billingslea, vígbúnaðarsérfræðingur forsetans, nefnir svo tvær ástæður til viðbótar í viðtali við sjónvarpsstöðina PBS.  Rússar hafi misnotað sáttmálann til að dreifa áróðri sínum um heiminn - til að mynda hafi þeir reynt að fá þjóðir til að samþykkja ólöglega innlimun Krímskaga og hernám sitt við Georgíu. Það sé ólíðandi. Að auki sé tæknin núna þannig að gervihnattamyndir hafi tekið við hlutverki slíkra eftirlitsvéla. Bandaríkjamenn geti leitað leiða hjá bandamönnum sínum til að vinna með þær. En hegðun Rússa hefur verið dapurleg, segir Billingslea.

NATO styður samninginn

NATO hefur barist gegn því að Bandaríkjamenn dragi sig úr samkomulaginu - enda njóta ríkin góðs af þeim upplýsingum sem Bandaríkin afla á grundvelli samningsins. Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO segir bandalagið styðja samninginn áfram. Rússar hafi  á hinn bóginn sett takmörk sem séu ekki í samræmi við sáttmálann, og bendir þar á takmarkanir á flugi nálægt landamærunum að Georgíu, og yfir Kalíníngrad, svæði milli Póllands og Litáen sem er undir yfirráðum Rússa. Þetta hafi grafið undan framlagi sáttmálans til þess að tryggja öryggi og stöðugleika á svæðinu. Leitast yrði við að fá Rússa til að standa við samninginn. 

Alþjóðasamfélagið hefur þegar lýst áhyggjum af þróuninni. Sameinuðu þjóðirnar segja meðal annars að samningurinn hafi aukið öryggi alþjóðasamfélagsins með því að draga úr vígbúnaðarkapphlaupi. Ef hann verður að engu án þess að nokkuð komið í staðinn geti það leitt til nýs vígbúnaðarkapphlaups. NATO og Evrópusambandið hafa brýnt Rússa til að halda sig við samninginn. NATO-ríkin hafa áhyggjur af því að ekkert eftirlitsflug verði yfir Rússlandi þegar Bandaríkjamenn hætta því, sem dragi úr almennu öryggi í Evrópu.

Russian President Vladimir Putin (R) and Russian Foreign Minister Sergei Lavrov (L) attend the main session for the International Libya Conference in Berlin, Germany, 19 January 2020. By means of the 'Berlin Process', German government seeks to support the peace efforts of the United Nations (UN) to bring about an end to the conflict in Libya. Following the renewed outbreak of hostilities in April 2019, UN presented a plan to stop further military escalation and resume an intra-Libyan process of reconciliation.
 Mynd: SEAN GALLUP / POOL - EPA
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands og Vladimír Pútín forseti, þeir sem helst móta utanríkisstefnu Rússlands.

Rússar saka Bandaríkjamenn um samningsbrot

Rússar hafa gagnrýnt ákvörðun Bandaríkjamanna og segja hana ógna öryggi í Evrópu, en ekki gefið annað til kynna en að þeir ætli áfram að eiga aðild að samningnum.

„Það eru Rússar sem eru með skýrar ábendingar um brot Bandaríkjamanna á samningnum,“ segir Maria Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins. Hún segir að þeim hafi verið lýst í smáatriðum fyrir Bandaríkjamönnum í febrúar. Brot Bandaríkjamanna felist í því að setja sérstök takmörk á það flug sem Rússar megi fara í yfir Bandaríkin, til dæmis yfir Hawaii.

Þarna er Zakharova að vísa í takmarkanir sem Bandaríkjamenn settu á sem svar við takmörkununum sem Rússar settu sjálfir á flug yfir sitt land.

Anatoly Atanov sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum bætti um betur, og sagði að ákvörðunin væri ekki uppbyggjandi. „Þetta sýnir það mynstur af hálfu Banaríkjastjórnar að draga sig út úr tvíhliða samningum sem hafa mótað hegðun venjulegra þjóða í hinum siðmenntaða heimi,“ segir Atanov.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun
Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Albert Jónsson, sem var lengi helsti ráðgjafi utanríkisráðherra í öryggismálum, og síðar sendiherra í Bandaríkjunum og Rússlandi, hefur fylgst glöggt með þróun þessara afvopnunarssamninga. Hann segir samninginn um opna lofthelgi ekki hafa verið burðarvirki í afvopnunarmálum þegar litið er á stóru myndina. Samningurinn hafi þó skipt máli vegna þess trausts sem hann byggist á, en meint brot Rússa á honum hafi rýrt gildi hans.

„Það er auðvitað búið að margræða ágreiningsefnin í sérstakri nefnd sem er á vettvangi samningsins, en það virðist ekki ganga. Fyrir Bandaríkin og Rússland skiptir þetta ekki miklu máli. Þessari þjóðir hafa gervihnetti og ýmsar aðrar leiðir til að ná þessum upplýsingum. Þetta er meira mál fyrir bandamennina, minni ríkin sem eru langt í frá eins burðug í þessum efnum. Samningurinn heldur reyndar áfram og væntanlega munu hin 34 ríkin halda honum gangandi. Auðvitað er þetta neikvætt í sjálfu sér en þetta er ekki stórmál og mér sýnist þetta ekki hafa vakið stórkostlega athygli eða umtal.“

En getur það mögulega haft slæmar afleiðingar fyrir önnur ríki samningsins ef þau hafa ekki aðgang að sömu upplýsingum og áður? „Já. Bandaríkin hafa haft sérstakar flugvélar í þessu eftirliti. Mér skilst að bandamenn þeirra í NATO og önnur ríki sem eru aðilar að samningnum hafi reitt sig á upplýsingar frá Bandaríkjunum með þessari tækni þeirra. Hann hefur því verið ákveðin trygging fyrir lítil og veikburða ríki sem mögulega óttast Rússa, eða þess vegna Bandaríkin.“

Bandaríkjamenn hafa tekið fram að ef Rússar standa við samninginn að fullu verði þessi afstaða endurskoðuð. Albert segir að fátt bendi til þess. Rússar séu ekki tilbúnir að breyta afstöðu sinni til flugs yfir ákvæðin svæði, til dæmis Kalíníngrad.

Mynd með færslu
 Mynd: EBU

En þetta er ekki eini alþjóðlegi samningurinn sem Trump hefur dregið Bandaríkjamenn út úr frá því að hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Af öllum þeim samningum er sá stærsti líklega Parísarsáttmálinn, sem átti að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá hefur Trump líka dregið Bandaríkin úr alþjóðlegum vopnasölusamningi sem átti að tryggja að vopn væru ekki seld í stríðrekstur eða hryðjuverkastarfsemi. En það eru einnig fleiri afvopnunarsamningar sem Bandaríkjamenn hafa sagt sig frá, og það eru samningar sem geta haft afleiðingar fyrir alþjóðasamfélagið.

Í maí 2018 dró Trump Bandaríkin úr alþjóðlegu samkomulagi um kjarnorkuvopnaframleiðslu Írans, sem var undirritað árið 2015. Auk þessara tveggja landa komu, Bretar, Frakkar, Þjóðverjar og Kínverjar að samkomulaginu. Það átti að koma í veg fyrir framleiðslu á kjarnorkuvopnum í Íran sem hafði þá verið veruleg, og Íranar þurftu að sæta viðskiptaþvingunum af þeim sökum. Samkomulagið snerist um að Íranar drægju verulega úr auðgun úrans, sem og birgðum af því, og þeim var bannað að auðga úran til að framleiða kjarnorkuvopn. Þá áttu þeir að hleypa eftirlitsmönnum inn í landið til að kanna hvort þessu væri framfylgt. Í staðinn átti að aflétta öllum viðskiptaþvingunum.

Donald Trump sagði ástæðuna fyrir úrsögnina einfalda - Íranar hafi áfram getað auðgað úran og hefðu í skjóli samningsins getað komist á fremsta hlunn með að hefja kjarnorkustríð.

Við uppsögnina settu Bandaríkjamenn aftur viðskiptaþvinganir á Íran. Sérstakar ráðstafanir voru gerðar af hálfu Breta, Frakka og Þjóðverja til að halda samningnum gangandi en eftir árásina sem Bandaríkjamenn gerðu í janúar og varð Khassem Soulimani, aðalhershöfðingja Írans, að bana lýstu stjórnvöld þar því yfir að þau myndu ekki framar virða sáttmálann – nema viðskiptaþvingunum yrði aflétt.

Hluti af bandarískri pólitík

Albert Jónsson segir að samningurinn um kjarnorkuvopnaframleiðslu Írana, sem í raun sé aðgerðaáætlun en ekki samningur, hafi marga galla en menn hafi hingað til verið sammála um að hann væri það skásta sem var í boði. Meðal gallanna eru að Íranar gætu farið hratt í að framleiða kjarnorkuvopn á ný á grundvelli ákveðinna sólarlagsákvæða í áætluninni.

„Það er eitt sem gerir Írans-samninginn sérstakan og ólíkan hinum. Hann tengist líka beint pólitík í Bandaríkjunum. Þetta er eitt af skýru kosningaloforðum Trumps. Hann hafði lýst því yfir að þetta væri einn versti samningur sem hann hefði nokkurn tímann séð og hann ætlaði að segja honum upp. Og hann stóð við það. Trump er óútreiknanlegur á mörgum sviðum en útreiknanlegur að því leyti að hann stendur við kosningaloforð. Þetta er nátengt ímynd hans og baráttunni fyrir endurkjöri. Írans-samningurinn tengist þessu.“

Traust frá 1987 farið

En það eru fleiri afvopnunarsamningar sem Donald Trump hefur sagt upp.
Ronald Reagan þáverandi Bandaríkjaforseti og Mikhail Gorbachev þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna undirrituðu samning um að hætta framleiðslu meðaldrægra kjarnaflauga 1987 sem hefur í daglegu tali verið kallaður INF-samkomulagið. Þetta á við um flaugar sem draga 500-5.500 kílómetra. Ákveðinn grunnur var lagður að þessum samningi á leiðtogafundi þeirra tveggja í Reykjavík árið áður, 1986.

Reagan sagði við undirritun samninganna að markmið þeirra væri að treysta og staðfesta. En það virðist sem í það minnsta traustið hafi minnkað með tímanum. Snemma í stjórnartíð Baracks Obama hafi komið grunsemdir um að Rússar væru að smíða stýriflaug sem drægi lengra en 500 kílómetra, í trássi við samninginn. Þessu höfnuðu Rússar en Bandaríkjamenn lýstu því formlega yfir 2014 að Rússar væru að brjóta samninginn. Málflutningur NATO hefur verið á sömu lund.

Albert segir Rússa telja sig hafa þörf á stýriflaugum sem draga svona langt. „Þeir líta svo á, af ýmsum ástæðum, að þeir þurfi eins mikið svigrúm og hægt er í ákveðnum hluta heimsins sem þeir líta á sem áhrifasvæði sitt. Það eru í aðalatriðinum fyrrverandi Sovétlýðveldi sem ná frá Austur-Evrópu inn í Mið-Asíu. Það er langt og flókið mál að fara út í af hverju menn hugsa svona. Grunnhugsunin er sú að andstæðingurinn, í þessu tilviki Vesturveldin og Bandaríkin, eigi ekki að falla í þá gryfju að halda að Rússar hafist ekki að til að verja sína hagsmuni, af ótta við að það komi til kjarnorkuátaka á heimasvæði þeirra. Rússar telja sig því þurfa að hafa yfir að ráða alls kyns tegundum af kjarnavopnum, bæði litlum og stórum, til að geta alltaf svarað í sömu mynt. Þetta snýst um að sannfæra andstæðinginn fyrirfram um að þeir geti alltaf brugðist við.“

Donald Trump, sem var sömu skoðunar og stjórn Obama og NATO um samningsbrot Rússa, dró Bandaríkin út úr samningnum í febrúar í fyrra.

Trump sagði Bandaríkjamenn hafa uppfyllt samninginn en Rússar ítrekað farið á svig við hann árum saman. Sama stef og í lofthelgissamningnum síðar. Í þessu tilviki lýstu Bandaríkjamenn yfir, rétt eins og nú, að ef Rússar myndu sýna vilja til að virða samkomulagið væri hægt að taka þráðinn upp að nýju. Það gerðist ekki og því lýsti Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO yfir endalokum samningsins í ágúst síðastliðnum, vegna þessara stýriflauga.

Albert segir að þrátt fyrir að þessi samningur sé milli Bandaríkjanna og Rússa sé Trump ekki aðallega að hugsa um Rússa með því að segja samningnum upp.

„Hann er aðallega að hugsa um Kína. Þessir samningar hefta ekki Kínverja og samkeppnin við Kína er stóra málið í utanríkis- og þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna í síauknum mæli. Þessi samkeppni á væntanlega eftir að vera ráðandi þáttur í alþjóðamálum á þessari öld. Það sem Trump vill gera er að INF-samningurinn eða álíka samningur nái ekki bara til Rússa heldur líka til Kínverja - fyrst og fremst er hann að hugsa um Kínverja. Rússland er ekki aðili með sama hætti í þessu að áliti Bandaríkjanna. Trumpstjórnin vill gera þríhliða samning um kjarnavopn, langdræg, meðaldræg, allan pakkann, milli Bandaríkjanna, Rússlands og Kína. Og það er er mjög flókið mál og Kínverjar hafa sagt þvert nei.“

Vill Kínverja að New Start samningi

En áhrifasvæði Rússa sem Albert talar um tengist líka öðrum samningi milli Bandaríkjamanna og Rússa, sem hefur verið kallaður New Start, eða ný byrjun. Hann snerist í stuttu máli um að þjóðirnar fækkuðu kjarnaflaugum sínum um helming, og að nýju eftirliti verði komið á með því að þetta verði gert. Hann var undirritaður árið 2010 og á að renna út á næsta ári. Rússar höfðu sagt forvera þessa samnings upp 2007, en sá samningur var gerður í lok kalda stríðsins. Albert segir að ástæðan hafi verið sú að þeir hafi talið samninginn hefta möguleika þeirra til að tryggja hagsmuni sína á þessu ætlaða áhrifasvæði - meðal annars með tilfærslu á hermönnum sem var bönnuð. Árið eftir réðust Rússar svo á Georgíu.

Albert segir að ef New Start samningurinn verður ekki framlengdur, eins og virðist líkleg niðurstaða ef Trump verður áfram forseti að loknum kosningunum í haust, sé stærsti ókosturinn fyrir Bandaríkjamenn sá að þeir geti ekki lengur haft eftirlit með vígbúnaði Rússa. En samkeppnin við Kína sé bandarískum stjórnvöldum nú efst í huga.

Mynd með færslu
 Mynd:
Xi Jinping forseti Kína og Donald Trump forseti Bandaríkjanna.

„Kína stefnir að óbreyttu í að vera jafningi Bandaríkjanna - langöflugasti andstæðingur sem Bandaríkin hafa nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Þetta tekur langan tíma, en á næstu árum og áratugum mun bandarísk utanríkis- og öryggisstefna fyrst og fremst taka mið af samkeppninni við Kína. Það er ekki Bandaríkjunum í hag í þeirri samkeppni að það séu engir samningar sem haldi aftur af Kínverjum, og ef svo er vilja Bandaríkjamenn hafa sömu möguleika og Kínverjar.“

Og það er ákveðin ástæða fyrir því að Kínverjar vilja ekki ganga til samkomulags um kjarnorkuvopn við Bandaríkin. „Kínverjar eiga að öllum líkindum „ekki nema“ 300 kjarnaodda, meðan Rússland og Bandaríkin mega hvort um sig eiga 1.500 langdræga odda, og svo eiga þjóðirnar hvor um sig 2-3 þúsund skammdræg kjarnavopn - Rússar ívið  meira. Kínverjar segja að meðan munurinn er svona mikill komi þeir ekki að neinu samningaborði. Það geri þeir ekki fyrr en hinir hafi fækkað vopnunum í nánd við það sem Kínverjar eiga. Þetta gengur ekki af hálfu hinna þjóðanna.“

Albert bendir líka á að Rússar hafa sagt opinberlega að þeir ætli ekki að þrýsta á Kínverja að fara í þríhliða viðræður um kjarnavopn. Rússar væru þó örugglega undir niðri tilbúnir til að fá Kínverja inn í þessa samninga þar sem það henti Rússum jafn vel og Bandaríkjamönnum að koma í veg fyrir að kjarnorkuherstyrkur Kína vaxi. Hann telur auk þess útilokað að Kínverjar gerist aðilar að nýjum Start-samningi, einfaldlega vegna þess að hvorki Bandaríkjamenn né Rússar ætli að fækka kjarnorkuvopnum bara til að fá Kínverja að samningaborðinu.

Meiri vígbúnaður á næstu áratugum

Þessi atburðarás, sem við höfum farið yfir, virðist leiða það í ljós að þessir afvopnunarsamningar eru annað hvort orðnir að engu eða hafa mun minna gildi en áður. Washington Post greindi að auki frá því á föstudaginn, daginn eftir að Donald Trump tilkynnti að Bandaríkin drægju sig út úr lofthelgissamningnum, að Bandaríkjastjórn hefði rætt um að gera sínar eigin kjarnorkuvopnatilraunir - nokkuð sem Bandaríkjamenn hafa ekki gert í hartnær 30 ár.

Borið hefur á ótta við að þetta geti orðið vísir að nýju vígbúnaðarkapphlaupi. Albert segir að þó að spenna sé að aukast geti alþjóðasamfélagið andað rólega í bili. Samkeppni Bandaríkjanna og Kína verði áratugi að mótast.

„Auðvitað herðir á einhvers konar vígbúnaðarkapphlaupi þegar fram í sækir. Kínverjar eru að stækka herinn sinn og honum er að vaxa ásmegin. En í bili er þetta fyrst og fremst efnahagsleg og tæknileg samkeppni milli Bandaríkjanna og Kína. Hún er hins vegar mjög harkaleg og hún mun þróast og leiða til sífellt meiri hernaðarlegrar samkeppni þegar kemur fram á öldina.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi