Leikmenn Liverpool tóku lagið fyrir fertugan Gerrard

Mynd með færslu
 Mynd: Liverpool FC - Twitter

Leikmenn Liverpool tóku lagið fyrir fertugan Gerrard

30.05.2020 - 15:00
Steven Gerrard, goðsögn hjá enska knattspyrnuliðinu Liverpool, er fertugur í dag. Leikmenn Liverpool sendu honum kveðju frá æfingasvæði sínu Melwood í tilefni dagsins.

Gerrard lék 710 leiki fyrir Liverpool á ferli sínum frá 1998 til 2015 áður en hann hélt til Bandaríkjanna þar sem hann lék með Los Angeles Galaxy í eitt og hálft tímabil. Hann vann bæði FA-bikarinn og Meistaradeildina með fyrrnefnda félaginu en tókst þó aldrei að vinna ensku deildina.

Gerrard er í dag þjálfari Glasgow Rangers í Skotlandi en skosk knattspyrnuyfirvöld ákváðu að blása leiktíðina af þar í apríl. Rangers hafnaði í öðru sæti deildarinnar, á eftir meisturum Celtic, annað árið í röð undir stjórn Gerrards.

Tímabilið var hins vegar ekki blásið af á Englandi og undirbúa leikmenn Liverpool sig undir að það hefjist á ný um miðjan júní. Þeir tóku tvær mínútur af æfingu sinni í dag í að syngja afmælissönginn fyrir Gerrard á fjölmörgum tungumálum. Þar á meðal ensku, frönsku, spænsku, portúgölsku og hollensku.

Liverpool hélt þá einnig upp á daginn með því að taka saman öll 186 mörkin sem Gerrard skoraði á ferli sínum með félaginu. Úr varð tæplega 38 mínútna myndskeið sem sjá má að neðan.