Hörð mótmæli víða um Bandaríkin

30.05.2020 - 03:30
Protesters gather near the site of the death of a man, Tuesday, May 26, 2020, who died in police custody Monday night in Minneapolis after video shared online by a bystander showed a white officer kneeling on his neck during his arrest as he pleaded that he couldn't breathe. (AP Photo/Jim Mone)
 Mynd: AP
Alda mótmæla ríður nú yfir fjölda borga í Bandaríkjunum vegna andláts Georges Floyd.

Algert útgöngubann var fyrirskipað í Minneapolis og St. Paul frá kl. 1 í nótt að íslenskum tíma. Útgöngubannið verður í gildi alla helgina og sinni fólk því ekki verður það tekið höndum. Það hefur þó ekki stöðvað mótmælendur sem hafa þyrpst út á göturnar.

Lögregla beitti piparúða á fréttateymi á vegum CNN í Louisville í Kentucky og mikil reiði braust út í Minneapolis eftir að fréttamenn voru teknir höndum þar. Þeim var fljótlega sleppt. Miklu ofbeldi var beitt í Atlanta fyrr í dag, rúður voru brotnar og kveikt í bifreiðum. Einhvers konar púðurkerling var sprengd við höfuðstöðvar CNN í borginni. Svo virðist þó sem eitthvað sé að draga úr mótmælum þar núna.

Mótmælendur hafa flykkst út á eina af aðalgötum Las Vegas en þar virðist allt með kyrrum kjörum enn. Táragasi hefur verið beitt á mótmælendur í Dallas í Texas. Í Houston héldu þátttakendur uppi spjöldum með áletrunum á borð við „Stöðvið hrottaskap lögreglu” og „Líf þeldökkra skipta máli”.

Borgarstjóri Houston hefur hvatt mótmælendur til að hverfa til síns heima enda standi til að loka miðborginni. Í borginni Charlotte í Norður-Karólínu varpaði lögregla táragasi að mótmælendum og í Washington komust mótmælendur að byggingu fjármálaráðuneytisins og úðuðu málningu þar á veggi. Alríkislögreglan handtók nokkra einstaklinga en hefur síðan sleppt þeim úr haldi.

Hvíta húsinu var lokað um stund fyrr í dag vegna mótmælanna. Við Barclay miðstöðina í New York laust fylkingum mótmælenda og lögreglu saman. Ýmsu lauslegu var grýtt í lögreglu þar á meðal vatnsflöskum úr gleri og plasti. Einnig er mótmælt í Los Angeles, í Richmond í Virginíu og San Jose í Kaliforníu.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi