Formúla 1 fer af stað 5. júlí

epa08249653 British Formula One driver Lewis Hamilton of Mercedes AMG GP in action during the official Formula One pre-season testing at Barcelona-Catalunya circuit in Montmelo, near Barcelona, Spain, 26 February 2020.  EPA-EFE/ENRIC FONTCUBERTA
 Mynd: EPA

Formúla 1 fer af stað 5. júlí

30.05.2020 - 13:15
Formúla 1 má hefja göngu sína í Austurríki í byrjun júlí. Austurríska heilbrigðisráðuneytið gaf grænt ljós á tvær keppnir í landinu í dag.

Þýski ríkismiðllinn ARD hefur tíðindin eftir austurríska miðlinum APA. Heilbrigðisráðherra Austurríkis staðfesti við APA að þarlend stjórnvöld hefðu fallist á tillögu Formúlu 1 um að tvær keppnir fari fram á Spielberg-brautinni í Austurríki 5. og 12. júlí. Öryggisráðstöfunum austurrískra stjórnvalda sé mætt í tillögunni.

Ráðstafanirnar segja meðal annars til um að allir ökuþórar og starfsfólk liðanna verði skimað fyrir veirunni áður en þeim er veitt innganga í landið. Liðin munu þá taka með sér eins fáa starfsmenn og hægt er. 2000 manns að hámarki mega koma nálægt brautinni og þá munu liðin ekki gista á sömu hótelum.

Eftir keppnirnar tvær í Austurríki er stefnt á þá þriðju í Búdapest í Ungverjalandi þann 19. júlí. Tvær keppnir taka þá við á Silverstone-brautinni í Bretlandi 2. og 9. ágúst.

Formúlutímabilið átti að hefjast í Melbourne í Ástralíu í mars en hefur frestast vegna COVID-19 faraldursins. Ástralska kappakstrinum hefur verið aflýst ásamt þeim í Hollandi, Mónakó, Kanada, Frakklandi og Singapúr.

Til stendur að 18 kappakstrar fari fram í 16 löndum og tímabilinu ljúki í Abú Dabí þann 13. desember. 22 keppnir áttu upphaflega að fara fram. Óljóst er hvort allir kappakstrarnir á dagatalinu geti farið fram og einhverjar keppnir gæti þurft að færa. 

Lewis Hamilton í liði Mercedes er ríkjandi heimsmeistari síðustu þriggja ára. Mercedes hefur verið með mikla yfirburði síðustu ár en liðið hefur orðið meistari bílasmiðja samfellt frá árinu 2014.