Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bjargbrún Krýsuvíkurbjargs víða að hruni kominn

30.05.2020 - 22:10
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Langar sprungur hafa myndast á Krýsuvíkurbjargi á Reykjanesskaga. Jarðfræðingur segir hættulegt að ganga út á bjargbrún. Sjórinn hefur sorfið úr klettunum, sprungur hafa myndast og ómögulegt sé að segja hvenær stórar landfylllur hrynja ofan í stórgrýtta fjöruna. 

Það eru óvenjufáir ferðamenn á Krýsuvíkurbjargi á miðjum virkum degi. Alla jafna eru þó nokkuð margir sem leggja leið sína í þessa náttúruparadís á Reykjanesskaga. Og þó að ró virðist hvíla yfir staðnum er það alls ekki svo. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

„Þetta er stöðug barátta innri afla og ytri afla eins og við tölum um í jarðfræðinni þar sem innri öflin byggja upp, hraun og eldvirkni og slíkt og ytri öflin eru það sem við myndum flokka sem roföfl. Reykjanesskaginn er eitt augljósasta dæmið um hversu öflugt rofið er við strendur landsins,“ segir Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands.

Sjórinn sverfur linnulaust úr klettunum á Krýsuvíkurbjargi. Settar hafa verið upp girðingar sums staðar til að vara ferðafólk við því víða er landið að hruni komið.

Er alveg óhætt fyrir fólk fyrir að ganga þarna út á bjargbrún?

„Nei, núna á undanförnum árum hafa verið að koma sprungur í ljós á Krýsuvíkurberginu. Það þarf ekki annað en að horfa á þetta. Þetta er sæbratt og fyrir neðan er stórgrýtisfjara. Bergið er svolítið holt undir sig sem endurspeglar af sjávarrofinu sem ber þarna á linnulaust. Það sem gerist er að það grefur undan bergstálinu og það myndast sprungur á yfirborði og síðan með tímanum heldur áfram rofið og þetta hrynur niður. Þannig að nei, ef fólk sér svona sprungur, það ætti að halda sig landmegin. Ég held að það sé mjög góð þumalputtaregla að gera það. Og alls ekki að fara yfir því maður veit aldrei hvenær þetta hrynur,“ segir Þorsteinn.

Á loftmynd á vefnum map.is sést vel hvernig landið hefur breyst á tíu árum og lengsta sprungan sem nú í Krýsuvíkurbjargi var ekki þar fyrir áratug.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Klettur sem stendur út úr berginu kallast skögultönninn og fífldjarfir ferðamenn hafa yndi af því að príla út á hana og láta mynda sig. Tönnin er að hruni komin.

„Það er alveg óþarfi að leika sér að lífinu á þennan hátt. Því miður þá eru alltof margir sem gera þetta og ég mæli alls ekki með því. Ég myndi áætla að hún stæði mjög tæpt og maður veit aldrei hve mikið þarf eða hvenær hrynur,“ segir Þorsteinn.