Birtingarmynd djúpstæðs kynþáttamisréttis

30.05.2020 - 20:50
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Dauði Georgs Floyd er ekki eina ástæða mótmælanna í Bandaríkjunum. Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði segir örlög hans birtingarmynd langvarandi og djúpstæðs kynþáttamisréttis í landinu. Þá hafi kórónuveirufaraldurinn sömuleiðis áhrif.

Það eru fleiri en 100.000 Bandaríkjamenn látnir sökum kórónuveirunnar og fleiri en 40 milljónir misst vinnuna. Og þar kemur kynþáttamisrétti einnig við sögu.

„Það er greinilegt til dæmis að kórónuveiran leggst þyngra á svarta Bandaríkjamenn en hvíta. Tæplega fjórðungur þeirra sem hefur dáið úr sjúkdómnum eru svartir á meðan einungis 13% íbúanna eru það. Þetta endurspeglar líka misskiptingu auðs í Bandaríkjunum, svartir búa yfirleitt í minni íbúðum, þeir þurfa að fara í vinnu því þeir eru háðari því að fá tekjur. Þeir vinna yfirleitt síður vinnu sem hægt er að vinna að heiman. Allt þetta gerir það að verkum að þeir eru meira útsettir fyrir veiruna,“ segir Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

En þó að kórónuveirufaraldurinn hafi mögulega áhrif á ástandið nú liggja rætur mótmælanna dýpra. 

„Þetta er auðvitað má segja enn eitt málið sem hefur komið upp síðustu árin þar sem lögregla drepur svartan karlmann. Þetta hefur verið landlægt í Bandaríkjunum og er í raun ein ástæða langvarandi og djúpstæðs kynþáttamisréttis í Bandaríkjunum,“ segir Guðmundur. 

„Það hefur verið sagt eftir hvert málið á fætur öðru að nú sé nóg komið, nú hlýtur þessu að fara að linna, nú hlýtur þetta að fara að breytast. En þetta er svo djúpstætt, bæði í bandarísku samfélagi og meðal lögreglumanna að þeir líta á svarta, þegar þeir sjá svartan karlmann þá er eins og það stimplist inn að þarna sé glæpamaður á ferð.“

Aðhald í að atburðir náist á  myndband

Viðbrögð og viðurlög virðast einnig taka mið af húðlit fólks. Nægir að nefna mál frá 2017 því til stuðnings. 

„Þá skaut svartur lögreglumaður hvíta konu til bana í Minneapolis. Hann var dæmdur mjög fljótlega eftir það fyrir morð. Fjöldi annarra mála hefur komið upp þar sem hvítir lögreglumenn hafa drepið svarta þar sem engin eftirmál eru,“ segir Guðmundur. 

Málin sem komist hafa í hámæli undanfarin ár hafa flest náðst á myndband. Guðmundur segir ákveðið aðhald í því. 

„Það er það og það er erfiðara að láta svona mál hverfa. Myndirnar eru svo sláandi og forystumenn í samtökum svartra þeir fagna því að þessi myndbönd komi fram því að þetta er þá eina leiðin til að vekja athygli á þessu. Og í þessu tilviki held ég að það verði afskaplega erfitt fyrir réttarkerfið að horfa fram hjá því að þarna var raunverulega um morð að yfirlögðu ráði að ræða.“

Viðtalið við Guðmund má sjá í heild sinni í spilarnum hér að ofan.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi