„Ástandið er stjórnlaust og hættulegt“

30.05.2020 - 12:36
epaselect epa08453573 Rioters revel in front of a store set ablaze in response to the death of George Floyd in Minneapolis, Minnesota, USA, 29 May 2020. Floyd's life was cut short after a Minneapolis police officer pinned Floyd's neck to the street for several minutes earlier in the week. Hennepin County Attorney Mike Freeman announced murder and manslaughter charges against the Minneapolis police officer who killed George Floyd Friday afternoon.  EPA-EFE/CRAIG LASSIG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mótmæli héldu áfram í fjölmörgum borgum Bandaríkjanna í gær og í nótt. Ríkisstjóri Minnesota segir ástandið í ríkinu stjórnlaust og hættulegt. Hann segir að viðbúnaður vegna mótmælanna sé sá mesti í sögu ríkisins.

Útgöngubann sem sett var á í Minneapolis og St. Paul var virt að vettugi af mörgum. En það var ekki bara þar sem Bandaríkjamenn þustu út á götur í gærkvöld og nótt. Í Atlanta, New York, Dallas, Houston, Los Angeles og víðar í Kaliforníu, í Virginíu, Kólóradó og víðar var mótmælt. Í Detroit lést 19 ára maður þegar ökumaður brunaði hjá hópi mótmælenda og hleypti af skotum inn í mannfjöldann. Þá hvar Hvíta húsinu í Washington lokað um stund í gær þegar mótmælendur fylktu liði þar fyrir utan.

Upptök mótmælanna eru í Minneapolis, þar sem George Floyd lést á mánudag, eftir að lögreglumaður þrengdi að hálsi hans við handtöku. Lögreglumaðurinn var handtekinn í gær en það virðist litlu skipta fyrir mótmælendur. 

Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota, hélt fréttamannafund í morgun. Þar sagði hann ástandið stjórnlaust, hættulegt og án fordæma.

Hann segir að viðbúnaður vegna mótmælanna sé sá mesti í sögu ríkisins. Viðbúnaðurinn sé til að mynda þrisvar sinnum umfangsmeiri en við mótmælin sem áttu sér stað á sjöunda áratug síðustu aldar. 

Mótmælin sem Walz vísar til  kölluðust síðar Newark óeirðirnar, mótmælaalda sem breiddist um Bandaríkin, líkt og nú, eftir að tveir hvítir lögreglumenn börðu og handtóku svartan leigubílstjóra í Newark árið 1967. 

Newark óeirðirnar eru ein margra mótmæla á sjöunda áratugnum þar sem fólk reis upp gegn kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum. Litlu færri kröfðust réttlætis þegar Martin Luther King var skotinn til bana ári eftir Newark, árið 1968. 

Og nú árið 2020 eru kröfuspjöldin ekki ósvipuð og þá, á þeim stendur flestum að líf svartra skipti máli.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi