Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

WHO: Ungmenni ginnt til reykinga

29.05.2020 - 06:26
Mynd með færslu
 Mynd: Clément Falize - Unsplash
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) heldur fram að tóbaksframleiðendur beiti banvænum brögðum til að ginna börn og unglinga til reykinga. Það væri engin tilviljun að mikill meirihluti reykingafólks kveikti í fyrstu sígarettunni fyrir átján ára aldur.

Næstkomandi sunnudagur er Reyklausi dagurinn sem fyrst var haldinn 31. maí árið 1988. Þess vegna vekur stofnunin athygli á þessu núna.

Um 44 milljónir barna á aldrinum þrettán til fimmtán ára reykja nú þegar og fjöldi yngri barna gæti bæst við þá tölu.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vill biðla til allra sem vettlingi geta valdið um liðsinni við að fá tóbaksiðnaðinn til að láta börn heimsins í friði.

Fulltrúi stofnunarinnar segir iðnaðinn beita ljótum brögðum, til dæmis sé tóbaki stillt upp nærri sælgæti í sumum stórmörkuðum í löndum þar sem reykingavarnaregluverkið sé veikt.

Sömuleiðis heimsæki ráðgjafar skóla þar sem ungum börnum sé kennt að nota rafsígarettur og í þróunarlöndum sé börnum jafnvel gefnar sígarettur.

Á tímum kórónuveirunnar hafi margir þeirra sem þurftu að halda sig heima reynt að venja sig af reykingum. Tóbaksiðnaðurinn hafi brugðist við því af miklum þunga til dæmis gáfu framleiðendur grímur með myndum af vörumerkjum sínum.

Þeim sem byrja að reykja fer þó fækkandi og sömuleiðis fjölda þeirra sem reykja að staðaldri.