Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja samráð um legu Borgarlínu meðfram Nauthólsvegi

29.05.2020 - 08:42
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Landhelgisgæslan vill vera með í ráðum við frekari ákvörðun um legu Borgarlínunnar meðfram flugskýli gæslunnar í Vatnsmýri. Tryggja verði að flugrekstur stofnunarinnar skerðist ekki. Þetta kemur fram í umsögn Landhelgisgæslunnar um kynningu á breytingum á aðalskipulagi Kópavogs og Reykjavíkur er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi Borgarlínu liggi meðfram Nauthólsvegi þar sem Landhelgisgæslan er með flugrekstur sinn.

Í umsögn landhelgisgæslunnar kemur fram að Borgarlínan eigi líklega eftir að létta verulega á auknum umferðarþunga á Nauthólsvegi og Flugvallarvegi. Komið sé að endurnýjun á aðstöðu stofnunarinnar vegna aldurs flugskýlis, öryggis- og brunavarna og fjölgunar á þyrlum.

Landhelgisgæslan vill því árétta að við frekari ákvörðun um legu Borgarlínunnar á þessum stað sé afar mikilvægt að haft sé tilhlýðilegt samráð við stofnunina svo að hægt sé að taka tillit til allra sem hagsmuna eigi að gæta. Þannig verði hægt að tryggja að flugrekstur stofnunarinnar á svæðinu skerðist ekki.