Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skarsgård-bróðir, Ingvar E. og GDRN leika í Kötlu

Mynd með færslu
 Mynd: RVK Studios

Skarsgård-bróðir, Ingvar E. og GDRN leika í Kötlu

29.05.2020 - 14:24

Höfundar

Tökur á íslensku Netflix-þáttaröðinni Kötlu eru hafnar en meðal leikara í henni eru Guðrún Ýr Eyfjörð, betur þekkt sem tónlistarkonan GDRN, Íris Tanja Flygerning, Ingvar Sigurðsson, Þorsteinn Bachmann, Sólveig Arnarsdóttir og Svíarnir Aliette Opheim og Valter Skarsgård.

Þættirnir eru úr smiðju Baltasars Kormáks og framleiddir af RVK Studios en í þeim er sagt frá lífi bæjarbúa í smábænum Vík. Einu ári eftir gos í Kötlu hefur líf bæjarbúa umturnast og margir neyðst til að yfirgefa bæinn því jökullinn nálægt eldfjallinu byrjar að bráðna. Þau örfáu sem eftir eru reyna að halda samfélaginu gangandi í plássinu sem nánast er orðið að draugabæ. Dularfullir hlutir sem frusu djúpt inn í jökulinn fyrir löngu síðan koma síðan í ljós og hafa ófyrirséðar afleiðingar.

„Það er frábært að vinna með Baltasar því að maður treystir leikstjórn hans svo vel. Það er undantekningalaust hægt að stóla á að hann gefist ekki upp fyrr en senan er orðin fullkomin,“ segir Guðrún Ýr Eyfjörð, GDRN, sem þreytir frumraun sína sem leikkona í Kötlu. „Eftir fjölmargar leikaraprufur settum við saman frábæran leikhóp fyrir Kötlu og það er valinn maður í hverju rúmi,“ segir Baltasar Kormákur leikstjóri og framleiðandi. „Í bland nokkrir af bestu og reyndustu leikurum þjóðarinnar og síðan frábærir ungir leikarar sem koma fram í stórum hlutverkum.“

Tveir sænskir leikarar eru þar á meðal og er annar þeirra, Valter Skarsgård, úr mikilli leikarafjölskyldu þar sem frægastir eru faðir hans Stellan Skarsgård og bróðir hans Alexander. Sjálfur lék Valter í Lords of Chaos sem er byggð á sögu norsku svartmálmshljómsveitarinnar Mayhem sem varð fræg fyrir kirkjubrennur og fleira misjafnt, en tónlist myndarinnar var eftir Sigur Rós. Leikhóp Kötlu skipa einnig Guðrún Gísladóttir, Baltasar Breki Samper, Björn Thors, Haraldur Ari Stefánsson, Birgitta Birgisdóttir, Helga Braga Jónsdóttir,  Björn Ingi Hilmarsson, Aldís Amah Hamilton og hinn 9 ára gamli Hlynur Atli Harðarson. Handritshöfundar eru auk Baltasars Sigurjón Kjartansson, Davíð Már Stefánsson og Lilja Sigurðardóttir. Alls verða framleiddir átta þættir en óvíst er hvenær af frumsýningu verður.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hefur ekki undan við að svara framleiðendum

Sjónvarp

Allir skimaðir fyrir COVID-19 á tökustað Kötlu

Kvikmyndir

Netflix fullfjármagnar þáttaröð á íslensku

Tónlist

Tónlist Sigur Rósar ómar undir kirkjubrennum