Landamæri Danmerkur opnuð fyrir Íslendingum

29.05.2020 - 12:17
epa04330442 Pedestrians stroll at Stroeget, a popular pedestrian street in downtown Copenhagen, Denmark, 04 June 2014.  EPA/MAURITZ ANTIN
Strikið Mynd: EPA
Danska ríkisstjórnin ákvað í dag að opna landamæri sín fyrir Íslendingum, Norðmönnum og Þjóðverjum frá 15. júní. Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti þetta á fundi með fréttamönnum í Kaupmannahöfn í dag.

Þá tilkynnti lögmaðurinn í Færeyjum í morgun að Íslendingar megi koma til Færeyja frá 15. júní án þess að fara í sóttkví. Ekki er heldur gerð krafa um sýnatöku eða vottorð. Sem stendur hefur ekki verið tilkynnt að neinir aðrir en Íslendingar, Danir og Grænlendingar fái að koma óhindraðir til eyjanna en boðað er að fleiri lönd sem náð hafa tökum á veirunni bætist á þann lista.

Opnað á landamæri Noregs og Danmerkur

Ferðalög á milli Danmerkur og Noregs verða heimil  frá og með 15.júní. Þetta er meðal þess sem kom fram á fréttamannafundum sem forsætisráðherrar landanna tveggja boðuðu til í hádeginu að íslenskum tíma.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, kynntu á fundunum sömuleiðis aðrar væntanlegar tilslakanir á ferðatakmörkunum til og frá löndunum tveimur.

Solberg sagði á fundinum í Ósló að viðræður séu hafnar við stjórnvöld annarra Norðurlandaþjóða, þar á meðal Íslands, um að opna milli landanna á grundvelli svipaðra reglna og Noregur og Danmörk hafa nú samið um.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi