Íslendingar mega ekki gista í Kaupmannahöfn

epa08452070 Prime Minister Mette Frederiksen during a press conference in the Prime Minister's Office in Copenhagen, Denmark, 29 May 2020. The government advises against travelling to countries other than Germany, Norway and Iceland until August 31st.  EPA-EFE/Liselotte Sabroe  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Þótt landamæri Íslands og Danmerkur hafi verið opnuð verða ferðir Íslendinga til gömlu herraþjóðarinnar ekki án takmarkana. Þetta kom fram á blaðamannafundi Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í dag. Til að mynda mega erlendir ferðamenn ekki gista í dönsku höfuðborginni en mega fara þangað í dagsferðir og snæða á veitingastöðum.

Danir tilkynntu í dag að landamæri þeirra yrðu opnuð fyrir Norðmönnum, Þjóðverjum og Íslendingum. Þannig verður þetta í sumar og staðan ekki endurmetin fyrr en 31. ágúst. Þá geta Íslendingar ferðast til Færeyja og Eistlands en ekki hefur verið opnað fyrir ferðir til Noregs þótt það geti breyst á næstunni. 

Ferðalögin til Danmerkur, sem hefur verið vinsæll áningarstaður, verða þó ekki eins og vanalega. Þannig verða þeir erlendu ferðamenn sem þangað koma að vera með bókaða næturgistingu og framvísa slíkri bókun við komuna til landsins. Og þeir mega ekki gista í Kaupmannahöfn. „Þau smit sem hafa verið að koma upp að undanförnu eru nánast eingöngu bundin við Kaupmannahöfn og þess vegna verðum við að hafa þessar takmarkanir.“

Sömuleiðis mælast dönsk yfirvöld til þess að þeir Danir sem ætla að ferðast til þessara þriggja landa haldi sig fjarri stórborgum og kynni sér vel leiðbeiningar í hverju landi. 

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði enn fremur að þeir Danir sem ætluðu að ferðast til annarra landa en þessara þriggja yrðu að fara í tveggja vikna sóttkví við heimkomuna. Nágrannalandið Svíþjóð væri þar á meðal.

Guðlaugur Þórðarson, utanríkisráðherra, sagði í hádegisfréttum að hann ætti von á jákvæðum fréttum varðandi ferðalög milli Íslands og Noregs á næstunni. „Ég átti bæði samtöl við norska og danska utanríkisráðherrann í gær og við eigum sömuleiðis von á jákvæðum fréttum frá Noregi. Við höfum lagt á það áherslu að norrænu ríkin vinni saman að þessu máli,“ sagði Guðlaugur Þór.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi