Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hertar reglur um fegrunaraðgerðir með leysigeislum

29.05.2020 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Reglur um notkun leysigeislatækja verður hert, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra, sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Ábendingar til Geislavarna ríkisins og kvartanir til Embættis landlæknis um óábyrga notkun öflugra leysa í fegrunarskyni eru meginástæða þess að ákveðið var að endurskoða núgildandi reglugerð, að því er segir á vef stjórnarráðsins.

Lagt er til að notkun öflugra leysa í fegrunarskyni skuli vera á ábyrgð læknis með viðeigandi sérmenntun og að hann starfi þar sem notkunin fari fram. Þá er lagt til að auknar kröfur verði gerðar um þjálfum þeirra sem noti slík tæki. 

Snyrtifræðingum og öðrum sem hafa grunnmenntun sem samsvarar menntun þeirra og hafa fengið þjálfun í notkun tækjanna verður heimilt að nota þau á hrukkur og til háreyðingar nema á augnsvæði, sé ekki húðbreyting á því svæði sem meðferðin beinist að.

Geislavörnum ríkisins og Embætti landlæknis hafa ítrekað borist ábendingar um að við fegrunaraðgerðir hafi verið beitt öflugum leysum til að meðhöndla húðbreytingar sem jafnvel geta tengst sortuæxli í húð, að því er segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. „Þetta hafi verið gert án aðkomu læknis með viðeigandi sérmenntun. Slíkt getur seinkað greiningu sortuæxlis og haft mjög alvarlegar afleiðingar,“ segir í tilkynningunni. Þá hafa borist kvartanir vegna alvarlegs húðbruna af völdum öflugra leysa sem hefur verið beitt til að fjarlægja húðflúr.

Viðurlög við brotum á reglugerðinni geta verið fésektir eða allt að tveggja ára fangelsi, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.