Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bíða viðbragða heilbrigðisráðuneytis við biðlistum

29.05.2020 - 06:40
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali Háskólasjúkrahú
Engar ákvarðanir hafa verið teknar af hálfu heilbrigðisráðuneytisins um hvernig eigi að bregðast við biðlistum eftir aðgerðum í kjölfar COVID-19 faraldursins. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu, sem segir annaðhvort þurfa aukið fjármagn til Landspítala eða að fela öðrum verkefnin.

Bæði Landspítalinn og einkareknar stofur eru sagðar bíða nú ákvörðunnar heilbrigðisráðuneytisins. Forsvarsfólk Orkuhússins og Klíníkurinnar hefur sagst  tilbúið að hjálpa til við að minnka biðlistana. Óvissa ríkir hins vegar enn um mögulega aðkomu þeirra.

Fyrstu fjóra mánuði ársins fækkaði aðgerðum á Landspítalanum um eitt þúsund vegna faraldursins, eða um 18%, miðað við sama tímabil í fyrra. Á sama tíma bættust einungis 190 manns á biðlista eftir aðgerð. 

„Það sýnir að fólk hefur ekki verið að komast á biðlistana, því flestar göngudeildir lágu niðri,“ er haft eftir Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans í Fréttablaðinu. Um 4.000 manns eru á biðlista eftir aðgerðum á spítalanum um þessar mundir og má gera ráð fyrir að sá listi lengist á næstunni.