3 sektaðir fyrir brot í samkomubanni

29.05.2020 - 21:15
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Tvö fyrirtæki og einn einstaklingur hafa verið sektuð fyrir brot í samkomubanni. Átján mál eru til rannsóknar. Á þriðja hundrað mál hafa verið rannsökuð en reyndust ekki vera brot. Yfirlögregluþjónn fagnar því hversu fá brotin hafi verið og þakkar það samstöðu fólks.

Landsmenn þurftu að laga sig að mörgum nýjum reglum í kórónuveirufaraldrinum eins og fjöldatakmörkunum og reglum um sóttkví. Þeir sem ekki fara eftir reglunum eiga yfir höfði sér sektir vegna brota á sóttvarnalögum. 

Þrír hafa verið sektaðir, átján mál eru í rannsókn og tvö hundruð og þrjátíu til fjörutíu mál voru skoðuð en ekki þótti ástæða til aðgerða. 

„Og svo eru það mörg hundruð tilkynningar sem bárust sem voru ekki skoðuð neitt nánar. Kom strax í ljós að voru ekki brot,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.

Þá bárust almannavörnum ótal fyrirspurnir frá fyrirtækjum um útfærslu á starfsemi í samkomubanni.

„Og það var eiginlega í nánast öllum tilfellum að þær hugmyndir sem fólk kom með pössuðu bara við þær reglur sem eru í gildi,“ segir Víðir.

Málin þrjú sem sektað var fyrir voru tvö fyrirtæki og einn einstaklingur.

„Einn einstaklingur sem neitaði að fara í sóttkví og tvö fyrirtæki sem voru með of marga,“ segir Víðir.

Hann fagnar því hversu sjaldan sóttvarnalögin hafa verið brotin.

„Þessi samstaða sem einkenndi þetta verkefni hingað til hún náði bara um allt og það voru bara allir með. Ég held að það sé hægt að rekja þau mál sem eru til rannsóknar og það sem er búið að ganga frá sektum með það að menn hafi gert mistök og gengist við því,“ segir Víðir.

Þannig að „ég hlýði Víði“ voru ekki bara innantóm orð?

„Mér hefur alltaf fundist þetta pínu broslegt. Þetta var kannski slagorð þess að allir vildu vanda sig. Ég held að þetta hafi verið akkúrat það, það vildu allir vera með, vildu allir gera þetta vel og það tókst,“ segir Víðir.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi