
Trump undirbýr tilskipun gegn samfélagsmiðlum
Trump hótaði því í gær og í dag að setja samfélagsmiðlum reglur, eftir að Twitter merkti eina færslu hans á miðlinum sem misvísandi. Twitter bætti við hlekk neðst á færslu þar sem forsetinn tengdi póstatkvæði við stórfellt kosningasvindl. Trump brást ókvæða við og sakaði Twitter um að hefta málfrelsi sitt. Það myndi hann ekki þola sem forseti Bandaríkjanna. Síðast í dag sagðist Trump ætla að setja samfélagsmiðlum strangar reglur, eða jafnvel loka þeim, vegna þess að Repúblikönum finnst raddir þeirra vera þaggaðar niður á miðlum þeirra.
....happen again. Just like we can’t let large scale Mail-In Ballots take root in our Country. It would be a free for all on cheating, forgery and the theft of Ballots. Whoever cheated the most would win. Likewise, Social Media. Clean up your act, NOW!!!!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 27, 2020
Örfáum klukkustundum síðar birti utanríkisráðherrann Mike Pompeo færslu á Twitter þar sem hann sagði Bandaríkjastjórn alfarið mótfallna lokunum netaðgangs og annari ritskoðun af hálfu stjórnvalda. Hann sagði Bandaríkjastjórn taka undir ákall alþjóðasamtaka um frelsi í netheimum um að standa ávallt vörð um það frelsi.
The U.S. stands against, and will not tolerate, government-imposed Internet shutdowns and other forms of censorship during or after this pandemic. We join @FO_Coalition’s call to promote and protect #InternetFreedom at all times.
— Secretary Pompeo (@SecPompeo) May 27, 2020
Hvíta húsið dreifði drögum að tilskipun í fyrra um aðgerðir vegna slagsíðu gegn íhaldsmönnum á samfélagsmiðlum. Sú tilskipun hlaut ekki brautargengi, segir á vef Reuters. Máli þrýstihóps íhaldsmanna í Bandaríkjunum gegn Google, Facebook, Twitter og Apple var vísað frá við áfrýjunardómstól í Washington í dag. Hópurinn segir fyrirtækin vinna saman að því að bæla niður pólitískar færslur íhaldsmanna á miðlum sínum.
Samtök um borgaraleg réttindi Bandaríkjamanna, ACLU, segja fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar, sem kveður á um tjáningarfrelsi, koma í veg fyrir að Trump hafi vald til þess að loka miðlunum.