Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Trump undirbýr tilskipun gegn samfélagsmiðlum

28.05.2020 - 00:30
epa08447921 US President Donald J. Trump (L) and First Lady Melania Trump (R) depart the White House in Washington, DC, USA, 27 May 2020. President Trump and the First Lady are traveling to NASA's Kennedy Space Center to watch the SpaceX Mission 2 launch. P  EPA-EFE/KEVIN DIETSCH / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar að undirrita tilskipun varðandi samfélagsmiðla á morgun. Embættismenn úr Hvíta húsinu greindu fjölmiðlum frá þessu um borð í forsetaþotunni í dag. Engar frekari upplýsingar voru veittar um hvað felst í tilskipuninni.

Trump hótaði því í gær og í dag að setja samfélagsmiðlum reglur, eftir að Twitter merkti eina færslu hans á miðlinum sem misvísandi. Twitter bætti við hlekk neðst á færslu þar sem forsetinn tengdi póstatkvæði við stórfellt kosningasvindl. Trump brást ókvæða við og sakaði Twitter um að hefta málfrelsi sitt. Það myndi hann ekki þola sem forseti Bandaríkjanna. Síðast í dag sagðist Trump ætla að setja samfélagsmiðlum strangar reglur, eða jafnvel loka þeim, vegna þess að Repúblikönum finnst raddir þeirra vera þaggaðar niður á miðlum þeirra.

Örfáum klukkustundum síðar birti utanríkisráðherrann Mike Pompeo færslu á Twitter þar sem hann sagði Bandaríkjastjórn alfarið mótfallna lokunum netaðgangs og annari ritskoðun af hálfu stjórnvalda. Hann sagði Bandaríkjastjórn taka undir ákall alþjóðasamtaka um frelsi í netheimum um að standa ávallt vörð um það frelsi.

Hvíta húsið dreifði drögum að tilskipun í fyrra um aðgerðir vegna slagsíðu gegn íhaldsmönnum á samfélagsmiðlum. Sú tilskipun hlaut ekki brautargengi, segir á vef Reuters. Máli þrýstihóps íhaldsmanna í Bandaríkjunum gegn Google, Facebook, Twitter og Apple var vísað frá við áfrýjunardómstól í Washington í dag. Hópurinn segir fyrirtækin vinna saman að því að bæla niður pólitískar færslur íhaldsmanna á miðlum sínum.

Samtök um borgaraleg réttindi Bandaríkjamanna, ACLU, segja fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar, sem kveður á um tjáningarfrelsi, koma í veg fyrir að Trump hafi vald til þess að loka miðlunum.