Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stúdentseinkunnir lækkuðu eftir styttingu náms

28.05.2020 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Meðaleinkunnir úr stúdentsprófi hafa lækkað eftir að námstími til stúdentsprófs var styttur. Brotthvarf hefur minnkað og fleiri vinna með skóla. Andlegri heilsu stúlkna í framhaldsskólum hefur hrakað. Þetta kemur fram í skýrslu mennta- og menningarmálaráðherra um árangur af styttingu námstíma til stúdentsprófs.

Hjá Háskóla Íslands hafa greinst vísbendingar um að meðaleinkunn nemenda sem útskrifast af þriggja ára stúdentsprófsbrautum séu lægri en hjá þeim sem útskrifast af fjögurra ára brautum. 

Árlegt brotthvarf nýnema hefur minnkað um 0,5% eftir breytinguna og óveruleg breyting hefur orðið á fjölda þeirra framhaldsskólanemenda sem taka þátt í skipulögðu félag- og tómstundastarfi.  Atvinnuþátttaka framhaldsskólanema samhliða námi hefur aukist, hún var um 41% árið 2018 þegar sá þáttur rannsóknarinnar var gerður og flestir vinna 5-9 klukkustundir á viku.

Andlegri heilsu framhaldsskólanemenda hefur hrakað

Litlar breytingar hafa orðið á líkamlegri heilsu framhaldsskólanemenda en andlegri heilsu þeirra hefur hrakað, einkum stúlkna eftir styttingu námsins.  Í skýrslunni er þó tekið fram að sú þróun hafi hafist talsvert fyrr en námstími til stúdentsprófs var styttur. 25% stúlkna sögðu andlega heilsu sína mjög góða og 13% sögðu hana lélega. 

Ákveðið var að stytta nám til stúdentsprófs í kjölfar útgáfu Hvítbókar um umbætur í menntun sem kom út árið 2014, en þar kom fram að íslensk ungmenni eru lengur að ljúka stúdentsprófi en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum.

Brotthvarf verður mælt með reglubundnum hætti

Skýrslan var unnin að beiðni Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, og fleiri þingmanna.  Í henni kemur fram að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, áformi að setja af stað verkefni næstu fimm árin þar sem samræmt mat verður lagt á það hversu vel undirbúnir nemendur komi í háskólanám. Samhliða því verður brotthvarf mælt með reglubundnum hætti.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir