Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skagfirðingar vilja hefja koltrefjaframleiðslu

Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, skrifuðu í gær undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu koltrefjaframleiðslu í Skagafirði.

Viljayfirlýsingin er hluti af stefnu stjórnvalda um að efla nýfjárfestingu í dreifðari byggðum. Í yfirlýsingunni kemur fram að stjórnvöld vilji byggja upp innviði í Skagafirði og byggja upp mannaflsfreka og umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Liður í þeirri uppbyggingu er meðal annars að tryggja raforkuöryggi á Sauðárkróki með Sauðárkrókslínu 2 en framkvæmdir við lagningu hennar hófust í vor.

Koltrefjar eru notaðar í ýmsar vörur í tengslum við iðnað, svo sem framleiðslu bíla, vindmylla flugvéla og þess háttar. Fyrirætlanir um koltrefjaframleiðslu hafa lengi verið á teikniborðinu í Skagafirði. 

Menntastofnanir og hagsmunaaðilar á svæðinu hafa unnið að rannsóknum og undirbúningi að uppbyggingu koltrefjaframleiðslu á Íslandi. Er það stefna Sveitarfélagsins Skagafjaðar að vera í fararbroddi á Íslandi á sviði trefjaframleiðslu og tengdrar starfsemi segir í tilkynningu frá Sveitarfélaginu.