Segir Kára aðeins þurfa að breyta einni símastillingu

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. - Mynd: althingi.is / skjáskot
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að það ekki rétt að viðtal við Kára Stefánsson í Kastljósi í gær afhjúpi að ríkisstjórnin hafi ekki verið með neina áætlun um opnun landsins 15. júní. Það eina sem þurfi að breytast sé að Kári þurfi að breyta einni stillingu í símanum sínum en fram kom í Kastljósi í gær að hann hafi lokað fyrir símtöl frá Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni, svo hann gæti ekki hringt í hann til að ræða um skimun á Keflavíkurflugvelli.

Þá gagnrýndi Kári Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, fyrir að hafa ekki rætt við fulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar við skipulag á skimuninni. Hann hafi heyrt það í fjölmiðlum að gert væri ráð fyrir framlagi fyrirtækisins. Fram kom í viðtalinu að Kári myndi líklega taka þátt í skimuninni á Keflavíkurflugvelli ef Þórólfur myndi hringja í sig, þá myndi hann eflaust ræða við hann, en eins og áður sagði hefur hann lokað fyrir símtöl frá Þórólfi. Kári kvaðst ekki tilbúinn til samstarfs um skimun ef hún yrði undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður og þingmaður Viðreisnar, spurði fjármálaráðherra að því í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun hvort það hafi verið heppilegt að ekki hafi verið haft betra samráð við Íslenska erfðagreiningu. Hún sagði að viðtalið hafi afhjúpað að ríkisstjórnin hafi ekki skipulegt fyrirkomulag skimunar 15. júní, en sem kunnugt er kynntu ráðherrar það á dögunum að ferðamenn geti komið til landsins þá og fengið skimun í flugstöðinni eða framvísað vottorði um skimun frá útlöndum.

Vill samráð við fagfólk

Þorgerður sagði að þetta gerist í sömu viku og þríeykið, Þórólfur, Alma Möller, landlæknir og Víðir Reynisson, yfirlögreglustjóri hjá Almannavörnum, hafi svarað hverri einustu spurningu, kallað fram gagnrýni og sett út skilaboð til að auka traust, eyða óvissu og treysta öryggi fólks á óvissutímum. „Það er það sem við erum að fara fram á af hálfu stjórnvalda og ríkisstjórnar líka.“

Mynd með færslu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar.  Mynd: Alþingi

Hún segir að stjórnarandstaðan sé vön því að ríkisstjórnin hafi ekki samráð. „En þetta samráðsleysi við helstu hagsmunaaðila sem geta hjálpað þjóðinni við það að opna landið, er mér með öllu óskiljanlegt.“ Það hafi verið tekin pólitísk ákvörðun um það að opna landið 15. júní. „Og þá hélt ég að menn færu í það að undirbúa það og tala við það fagfólk sem getur hjálpað okkur, óháð því hvort þau væru innan opinbera kerfisins eða á prívat markaði.“

Þorgerður Katrín spurði fjármálaráðherra hvort hann teldi það heppilegt að tíminn hafi ekki verið nýttur í það að tala við fagfólk sem hafi hjálpað í baráttunni við faraldurinn.

Segir ekki rétt að ríkisstjórnin hafi ekki gert áætlanir

Bjarni sagði að það væru mikil öfugmæli að segja að það væri engin áætlun. Ríkisstjórnin hafi einmitt fylgt áætlun sem hafi vakið mikla athygli. „Þau atriði sem þingmaður nefndir eru framkvæmdalegs eðlis. Ef marka má það sem fram kom í Kastljósþættinum í gærkvöldi er að það eina sem þarf að gerast er að Kári Stefánsson þarf að breyta einni stillingu í símanum og hann útilokaði ekki að fyrirtækið kæmi að málum ef eftir því væri leitað.“

Þá segir fjármálaráðherra það rétt að Íslensk erfðagreining hafi gegnt lykilhlutverki við að tryggja framkvæmd skimunar á Íslandi. „Þannig að við erum hér eingöngu að tala um framkvæmdalegt atriði áætlunar sem er alveg skýr og er auðvitað miðuð við aðstæður sem eru síbreytilegar.“ Það sé erfitt að segja hve margir komi með flugvélum til landsins síðari hluta júní mánaðar.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi