Segir að breyta verði rekstri Icelandair

28.05.2020 - 18:42
Mynd: RÚV / RÚV
Norskur sérfræðingur í flugrekstri segir að Icelandair þurfi að leggja af áherslu sína á að flytja farþega til og frá Evrópu og einbeita sér að því að flytja farþega til Íslands. Samkeppnin sé að verða of hörð. Félagið verði að taka rækilega til í rekstrinum svo bjarga megi flugfélaginu.

Icelandair stefnir að því að safna 30 milljörðum í hlutafjárútboði og vonast eftir ríkisaðstoð til að forða félaginu frá þroti. Hans Jørgen Elnæs sérhæfir sig í greiningum á rekstri flugfélaga. Hann segir að Icelandair verði að byrja á því vinna heimavinnuna til að bregðast við áhrifum Covid19 faraldursins.

„Þeir verða að auka skilvirkni í rekstri eins og flest önnur flugfélög í heiminum þar sem framleiðslan hefur dregist saman um 30 prósent. Almennt hefur 30 prósent starfsfólks einnig verið sagt upp. Ef Icelandair tekst að lækka launakostnað og rekstrarkostnað við flug þá mun þeim líklega takast að safna þessum 30 milljörðum sem þeir þurfa“.

Elnæs segir einnig að samkeppni lágfargjaldaflugfélaga um að flytja farþega á milli Evrópu og Bandaríkjanna knýi Icelandair til að breyta áherslum sínum.

„Samkeppnin um að flytja farþega á milli Evrópu og Bandaríkjanna mun aukast. Þrátt fyrir að Norwegian sé í vandræðum núna munu verða fleiri lágfargjaldaflugfélög með langdrægar vélar sem veita harða samkeppni. Ég held því að Icelandair þurfi að einbeita sér að því að flytja farþega frá Evrópu og Bandaríkjunum til Íslands þar sem Ísland er áfangastaðurinn auk þess að sinna íslenskum ferðamönnum. Það mun verða farsælasta leiðin fyrir Icelandair til að vaxa í framtíðinni“.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi