Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pompeo segir sérstöðu Hong Kong horfna

28.05.2020 - 01:21
epa08301769 US Secretary of State Mike Pompeo speaks to the media about the coronavirus COVID-19 pandemic, which he referred to as the 'Wuhan virus', at the State Department in Washington, DC, USA, 17 March 2020. Efforts to contain the pandemic have caused travel disruptions, sporting event cancellations, runs on cleaning supplies and food and other inconveniences.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi þingmönnum á Bandaríkjaþingi frá því í gær að Hong Kong hafi ekki lengur sérstaka stöðu samkvæmt bandarískum lögum. Hann segir kínversk stjórnvöld hafa grafið það mikið undan sjálfstæði Hong Kong, að hann geti ekki lengur stutt áframhaldandi sérstöðu héraðsins í viðskiptum við Bandaríkin. 

Samþykkt kínverska þingsins á nýjum öryggislögum gagnvart héraðinu varð kveikjan að háværum mótmælum. Lögin kveða á um bann við niðurrifsstarfsemi, andstöðu við sameiningu og erlendum afskiptum af Hong Kong. Bandaríkjastjórn hefur fordæmt ákvörðun kínverskra stjórnvalda. Heimildir fréttastofu Reuters herma að Bandaríkjastjórn íhugi að fella niður sérstaka útflutningstolla Hong Kong sem mótsvar við aðgerðum Kínverja. Eins eru líkur á að Trump Bandaríkjaforseti beiti viðskiptaþvingunum gegn kínverskum embættismönnum og ríkisfyrirtækjum í Kína.

Trump greindi frá því á blaðamannafundi á þriðjudag að harðar aðgerðir gegn Kína væru í bígerð. Þær verði kynntar fyrir vikulok. Samskipti ríkjanna eru verulega stirð. Þau hafa staðið í viðskiptastríði í nærri tvö ár, en átt í samningaviðræðum síðustu mánuði. 

Reuters hefur eftir kínverska sendiráðinu í Washington að sjálfstæði Hong Kong sé ekki í hættu vegna nýju laganna. Hvað erlend afskipti af málefnum Hong Kong varðar, þá ætla kínversk stjórnvöld að svara þeim með mótaðgerðum.

Þingmenn opna á viðskiptaþvinganir

Bandaríkjaþing samþykkti í gær að opna fyrir möguleikann á viðskiptaþvingunum gegn kínverskum embættismönnum. Það var þó ekki vegna þessa máls, heldur vegna minnihlutahóps Uighura, sem haldið er í nokkurs konar innrætingarbúðum. 413 þingmenn samþykktu frumvarpið og einn var á móti.