Nýtt frá Elízu Newman, Febrúar og fleirum

Mynd: Eliza Newman / Eliza Newman

Nýtt frá Elízu Newman, Febrúar og fleirum

28.05.2020 - 15:20

Höfundar

Enn heldur íslenska útgáfan áfram að blómstra og að þessu sinni er boðið upp á ágætis blöndu í Undiröldunni af nýliðum og lengra komnum með fjölbreytta tónlist úr flestum landsfjórðungum.

Celebs – Kannski hann

Valgeir Skorri, Hrafnkell og Katla eru systkin frá Suðureyri sem hafa sameinað krafta sína í níunda áratugar nostalgíuverkefninu Celebs sem var að senda frá sér slagarann Kannski hann. Merkilegt nokk hafa þau öll unnið Músíktilraunir, Katla með hljómsveitinni Between Mountains og bræður hennar Hrafnkell og Valgeir með hljómsveitinni Rythmatik.


Stuðlabandið – Hver ert þú

Ball- og brúðkaupssveitin Stuðlabandið notaði tímann í samkomubanni til að semja frumsamda tónlist. Stuðlabandið er ein vinsælasta ábreiðu- og skemmtisveit landsins. Í tilefni af því sendi sveitin frá sér lagið Hver ert þú? sem fjallar um ástina og lífið á tímum Tinder.


Elíza Newman – Vaknaðu

Tónlistarkonan af Suðurnesjum, Elíza Geirsdóttir Newman, hefur sent frá sér lagið Vaknaðu. Hún hefur marga fjöruna sopið í tónlistinni, frá því að vinna Músíktilraunir með sveit sinni Kolrössu í það að syngja um Eyjafjallajökul í beinni á Al Jazeera yfir í allt þar á milli.


Febrúar – About Time

Bryndís Jónatansdóttir kallar sig Febrúar þegar hún býr til tónllist og hefur sent frá sér plötuna About Time með samnefndu lagi. Hún fékk Daða Birgisson til að vera á tökkunum á plötu sem hún segir vera píanódrifna, poppaða og persónulega.


Pálmi og KK – Fyrir Fróða

Lagið Fyrir Fróða samdi Pálmi Sigurhjartarson við ljóð Halldórs Laxness úr Sjálfstæðu fólki til minningar um Fróða Ploder sem lést af slysförum 7. apríl. KK syngur lagið og spilar á kassagítar, Jón Ólafsson leikur á Hammond orgel, Þórunn Ósk Marínósdóttir á lágfiðlu og Þórður Högnason á kontrabassa.


Humátt – Leið þín

Hljómsveitin Humátt hefur sent frá sér lagið Leið þín sem er að finna á plötunni Ljósið. Sveitina skipa Þórhallur Sigurðsson, sem syngur og spilar á kassagítar, Friðjón Guðlaugsson á rafgítar, bassa, hljóðgervil og trommur og Alex Jóhannsson á rafgítar.