Neyðarlínan krefur borgarfulltrúa um afsökunarbeiðni

28.05.2020 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Róbert Douglas
Fulltrúar Neyðarlínunnar mættu á fund Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar í dag. Þar var rætt um atvik í miðborg Reykjavíkur á dögunum sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem tvær ungar konur voru meðvitunarlausar og kallað var eftir eftir aðstoð með símtölum til Neyðarlínu. Ráðið ályktaði og vill að gerð verði úttekt á verkferlum Neyðarlínu. Neyðarlínan vill afsökunarbeiðni frá borgarfulltrúa, vegna viðtals um málið.

Á fundinum í dag var einnig ein kona sem var í miðbænum þegar atvikið kom upp. Á samfélagsmiðlum hefur fólk lýst því að langur tími hafi liðið frá því að kallað var eftir sjúkrabíl þangað til komið hafi verið með hann á vettvang. Í fyrstu hafi komið lögreglubíll en ekki sjúkrabíll eins og óskað hafi verið eftir. Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður ráðsins, fór yfir gagnrýni á Neyðarlínuna í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og sagði að þegar fram komi óánægjuraddir, sem hún sagði að virðist eiga við rök að styðjast, þurfi að vera full vissa um að málin séu tekin alvarlega og af þeim dreginn lærdómur. Hún segir í samtali við fréttastofu að hún telji að það sé hlutverk stjórnmálafólks að hlusta eftir slíku og vera málsvarar þeirra sem telji sig hafa upplifað óréttlæti.

Neyðarlínan vill afsökunarbeiðni

Neyðarlínan sendi frá sér tilkynningu eftir fundinn í dag og sagði að Dóra Björt hafi sett fram grófar en tilhæfulausar ásakanir á hendur starfsfólki Neyðarlínunnar. Hún hafi velt því upp hvort viðbrögð neyðarvarðar hafi borið vott um kvenfyrirlitningu og/eða andúð á útlendingum og sjúkraliðar ekki kvaddir til með forgangi af þeim sökum. Í tilkynningu Neyðarlínunnar segir að þessar ásakanir eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Lögreglubíll hafi verið sendur á vettvang og að í þriðja samtali við Neyðarlínu hafi því verið lýst að viðkomandi andaði ekki. Þá hafi verið kvaddir til tveir sjúkrabílar með forgangsakstri á staðinn. Stúlkunum hafi verið komið til bjargar átta mínútum eftir að fyrst var beðið um aðstoð sjúkraliða og nokkrum mínútum síðar hafi þær verið komnar á bráðadeild Landsspítalans. „Fleiri vegfarendur hringdu inn til Neyðarlínunnar af þessu tilefni, en færslur sýna að viðbrögð neyðarliða, lögreglu og sjúkraliða voru í senn fumlaus og hröð. Ásakanir borgarfulltrúans eiga sér því enga stoð,“ segir í tilkynningunni. Neyðarlínan hefur farið fram á afsökunarbeiðni frá borgarfulltrúanum. 

Vilja úttekt á verkferlum Neyðarlínunnar

Mannréttindaráðið ályktaði um málinu á fundinum í dag og hvetur stjórn Neyðarlínunnar ohf. til að láta fara fram óháða úttekt á verkferlum og vinnubrögðum Neyðarlínunnar í tengslum við móttöku erinda frá íbúum og útköll. Ráðið ályktaði að úttektin ætti að taka mið af gagnrýni sem fram hafi komið í opinberri umræðu um verklag starfsmanna Neyðarlínunnar. Fimm samþykktu ályktunina og tveir sátu hjá.

Telur eðlilegt að Neyðarlínan svari spurningum

Reykjavíkurborg á um 20 prósenta hlut í Neyðarlínunni á móti ríkinu sem á um 80 prósent. Dóra Björt kveðst ekki vita hverju hún eigi að biðjast afsökunar á. Hún hafi bent á atriði sem hafi komið fram í umræðu um málið. Hún telji réttast, til að taka af allan vafa, að úttektin verði gerð. Það sé þó stjórnar Neyðarlínunnar að ákveða slíkt. Hún hafi velt upp spurningum sem henni finnist eðlilegt að Neyðarlínan svari. Ef úttekt leiði í ljós að allt sé eins og það eigi að vera sé það gagnlegt fyrir alla; Neyðarlínuna, starfsfólk hennar og almenning, að varpað sé skýru ljósi á það.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi