Myndband þykir varpa ljósi á stöðu farandverkafólks

28.05.2020 - 15:34
epa08447246 An Indian muslim migrant woman with her child arrives at the Lokmanya Tilak Terminus to catch the train for her village, in Mumbai, India, 27 May 2020. The Indian government has arranged several special trains for migrant workers stuck in other states for their return to their native places. According to media reports, the state government of Maharashtra extended the ongoing lockdown until 31 May to stem the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus, with new guidelines.  EPA-EFE/DIVYAKANT SOLANKI
Farandverkakona með börn sín á leið í lest frá Lokmanya Tilak til Mumbai. Mynd úr safni. Mynd: EPA
Níu farandverkamenn á Indlandi hafa farist síðustu daga á löngum ferðalögum á leið til heimaborga sinna. Þeir hafa margir lagt upp í langar ferðir í miklum hita því lítið er um vinnu vegna COVID-19 faraldursins. Myndband af tveggja ára barni að reyna að vekja móður sína sem er látin á lestarstöð hefur vakið mikil viðbrögð í landinu. Hún er sögð hafa látist úr ofþornun og hungri.

Móðirin heitir Arbina Khatoon og var 35 ára þegar hún lést á brautarpalli á lestarstöð í borginni Muzaffarpur í austurhluta landsins. Al Jazerra hefur eftir indverskum fjölmiðlum að fjölskylda hennar og farþegar í lestinni segi að hún hafi látist úr hungri og þorsta. Lögregla hefur aftur á móti lýst því yfir að hún hafi látist úr veikindum. Málið og myndbandið, sem deilt hefur verið víða á samfélagsmiðlum og verið birt í fjölmiðlum, þykir varpa ljósi að slæma stöðu farandverkafólks í landinu, sérstaklega núna á meðan faraldurinn geisar. Milljónir hafa misst lífsviðurværi sitt og reyna að komast aftur heim, sem oft gengur erfiðlega vegna ferðatakmarkana sem gripið hefur verið til vegna faraldursins. 

Lak hafði verið breitt yfir Khatoon þar sem hún lá látin á brautarpallinum og sést í myndbandinu er tveggja ára sonur hennar reynir að vekja hana með því að toga í lakið. Þau höfðu ferðast 1.800 kílómetra leið frá Gujarat í vestri. Myndbandinu er deilt í færslunni hér fyrir neðan.

Stjórnvöld hafa staðið fyrir lestarferðum fyrir farandverkafólk sem hefur verið fast á svæðum langt að heiman, án vinnu. Gagnrýnt hefur verið að skipulagningin hafi ekki verið nógu góð. Fólk hafi þurft að bíða óralengi eftir lestunum og í sumum tilfellum hafi fólk beðið dögum saman í miklum hita, annað hvort á lestarstöðvum eða inni í lestunum. Þá hafi matur og vatn verið af mjög skornum skammti í lestunum. Því neita ríkisstjórnin og lestarfyrirtækið Indian Railways. Talsmaður lestarfyrirtækisins hefur sagt að flest hinna látnu séu eldri borgarar, veikt fólk og fólk með langvinna sjúkdóma sem hafi verið á leið til stórborga til að fara til læknis.

Fjöldi fólks hefur gengið eða hjólað hundruð kílómetra í sumarhitanum og hafa margir örmagnast og látist. Fyrr í þessum mánuði urðu 16 farandverkamenn fyrir lest og létust. Þeir höfðu lagst til svefns á lestarteinum.

epa08409828 Migrant workers and their families queue up to enter the Railway Station to board a special train for Muzaffarpur in Bihar, in New Delhi, India, 08 May 2020. The Indian government and Indian Railways have partially resumed passenger train service to evacuate stranded migrants, students, pilgrims and tourists to Bihar, Madhya Pradesh, Uttar Pradesh, Jharkhand and Odisha. Passengers arriving on these trains are quarantined for 14 days and monitored by the local health authorities.  EPA-EFE/STRINGER
Farandverkafólk í röð á lestarstöðinni í Muzaffarpur. Mynd: EPA

Meðal þeirra sem hafa látist í þessum ferðum er fjögurra ára drengur. Faðir hans hefur sagt að hann hafi dáið vegna aðstæðna í lest fyrir farandverkafólk. Sú lest var einnig á leið til lestarstöðvarinnar í Muzaffarpur, sömu stöðvar og Arbina Khatoon lést á. Lögreglu hefur lýst því yfir að drengurinn hafi dáið úr veikindum. Í gær létust tveir karlar í 1.480 kílómetra langri lestarferð frá Mumbai tl Varanasi. Þeir voru 30 og 63 ára. Lögregla hefur sagt að þeir hafi verið með undirliggjandi sjúkdóma.

Talið er að vegna faraldursins séu yfir 100 milljón manns, þar á meðal farandverkamenn, án atvinnu á Indlandi. Útgöngubann tók gildi 25. mars til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Forsætisráðherra landsins, Narendra Modi, hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa sett bannið á án þess að hafa skipulagt viðbrögð við efnahagslegum afleiðingum þess.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi