Léttara að brjóta reglurnar þegar maður þekkir þær

Mynd: Sunna Ben / Aðsend

Léttara að brjóta reglurnar þegar maður þekkir þær

28.05.2020 - 09:38

Höfundar

Steinunn Jónsdóttir, Reykjavíkurdóttir og söngkona í Amabadama og Atli Sigþórsson, sem flestir þekkja betur sem rappskáldið Kött Grá Pjé, standa fyrir smiðju í Kramhúsinu í sumar. Þar ætla þau að aðstoða unga rappara við að koma rímum sínum og meiningum á blað og flytja þær í hipphopp-stíl.

Í smiðjunni fræða Steinunn og Atli upprennandi rappara um sögu hipphopps, mismunandi rappstíla, textagerð, flæði og veita persónulega leiðsögn sem hæfir ólíkt þenkjandi röppurum með ólíkan stíl. „Ég myndi ekki segja að við séum að kenna en svona hjálpa þeim af stað. Ég held það sé okkar hugsun, að hjálpa krökkunum að fikra sig sjálf áfram með að rappa,“ segir Atli. Sjálf rappa þau bæði mest á móðurmálinu og eru sammála um að íslenskan sé vel til þess fallin að brúka í rímur enda bjóði hún upp á ótal möguleika, hlustandinn þurfi ekki einu sinni að skilja orðin til að njóta. „Reykjavíkurdætur eru oft að rappa fyrir fólk sem skilur ekki íslensku en því finnst samt gaman að heyra þetta. Tungumálið er ryþmískt og með hörðum áherslum sem passa frekar vel við rapp,“ segir hún.

Á nýjustu plötu Reykjavíkurdætra, sem kemur út í lok vikunnar, blanda rapparar sveitarinnar hinsvegar í fyrsta skipti saman ensku og íslensku, rappa á íslensku en eru gjarnan með viðlag á ensku. Steinunni finnst samt þægilegra að semja á móðurmálinu. „Fyrir mitt leyti finnst mér þægilegast að skrifa á tungumálinu sem maður þekkir best. Því betur sem maður þekkir tungumálið sem maður er að nota, því betri texta getur maður skrifað. Það er léttara að brjóta reglurnar þegar maður þekkir þær. Það sem maður lærir í íslensku um bragarhætti nýtir maður sér ósjálfrátt. Það sem flæðir best stuðlar oft,“ segir hún.

Atli, sem er bæði rappari og rithöfundur, hefur sent frá sér þrjár bækur og nokkur ljóð. Hann segir muninn á nútímaljóðum og rappi helst vera þann að rappið sæki enn meira í gömlu kveðskaparhefðina en vaninn er í nútímaljóðagerð. „Rapp er eins og að semja ljóð áður áður en móderníska ljóðið kom til, eftir bragarreglum og bragarháttum,“ segir hann. „Maður verður eiginlega í rappi að nota rím og það er ágætt að nota ljóðstafi upp á hrynjandina að gera. Maður er pínu bundinn af forminu.“ En rappið skrifa þau ekki eins og ljóð. Þau velja ekki hvert orð gaumgæfilega, alla vega ekki strax, heldur leyfa taktinum að teyma þau á réttu versin. „Það fyrsta sem ég skrifa er yfirleitt ekki lokaútkoman. Ég finn flæði yfir taktinn og fínpússa í langan tíma til að þetta verði fullkomið,“ segir Steinunn. „Hjá mér er þetta þannig að það vellur upp úr mér mikið. Sumt er fullkomlega ónothæft, ýmist lélegt eða út í hött. Svo plokka ég úr því það sem er nothæft,“ tekur Atli undir. Þau hafa bæði staðið fyrir rappsmiðjum áður og þau skynja mikinn áhuga frá íslenskum ungmennum fyrir rappi. „Krökkum finnst gaman að fá tækifæri til að máta sig við aðra krakka sem eru að fikra sig áfram,“ segir Steinunn. „Þau koma með mjög skýrar hugmyndir um hvað þau langar að gera og hvernig þau sjá það fyrir sér.“

Og í því rappæði sem gripið hefur um sig á Íslandi síðustu ár vill fólk á öllum aldri reyna fyrir sér í rappinu með því að kveða rímur sínar yfir þéttum takti. Steinunn og Atli segja að það sé þó ekki á döfinni hjá þeim að vera með námskeið fyrir eldri en fimmtán ára í bili, en útiloka ekki smiðju fyrir fullorðna í framtíðinni. Atli segist þó hafa efasemdir um að vera tilbúinn að skilgreina sjálfan sig sem fullorðinn. „Ég persónulega hef barist gegn því síðustu fimmtán árin að verða fullorðinn, en það er aldrei að vita,“ segir hann. Steinunn minnir að lokum á að til standi að vera með framhaldsnámskeið fyrir ungmennin í haust og útilokar ekki að leyfa eldri röppurum að spreyta sig. „Þá getum við jafnvel breikkað aldursbilið,“ segir hún.

Rætt var við Steinunni Jónsdóttur og Atla Sigþórsson í Mannlega þættinum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Reiðihvæs kattarins er rétta stemmingin fyrir sumarið

Tónlist

„Verðum alltaf Reykjavíkurdætur á Íslandi“