Illa rökstutt og ruglingslegt

Mynd: Þorfinnur Ómarsson, EFTA / Þorfinnur Ómarsson, EFTA
Þó að markmið frumvarps um skipan sendiherra sé að fækka þeim, gæti þeim fjölgað samkvæmt ákvæðum í frumvarpinu. Sendiherra segir það illa rökstutt og ruglingslegt. Hann vill að frumvarpið verði dregið til baka. Gagnsæi, samtök gegn spillingu, vara við því að frumvarpið verði afgreitt með hraði.

Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda um starfsmenn utanríkisráðuneytisins eins og aðra opinbera starfsmenn. Lögin kveða um þá almennu reglu að laus embætti skuli auglýsa í Lögbirtingablaðinu. Í lögum um utanríkisþjónustu Íslands er hins vegar heimilt að víkja frá þessari reglu hvað varðar skipun bæði ráðuneytisstjóra og sendiherra. Í gegnum tíðina hefur ráðherra skipað í stöður sendiherra. Stöður þeirra hafa ekki verið auglýstar. Pólitískar skipanir í sendiherraembætti hafa oft verið umdeildar.

„Núgildandi lög um utanríkisþjónustuna veita ráðherra málaflokksins í raun algerlega frjálsar hendur með skipun sendiherra svo framarlega sem viðkomandi fyllir lágmarkskröfur sem gerðar eru til ríkisstarfsmanna. Embættin eru undanskilin auglýsingarskyldu, ekki eru tilgreindar neinar hæfniskröfur og raunin er sú að sendiherrum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Þannig að þegar ég tók við sem utanríkisráðherra voru þeir 40 talsins. Nokkrir hafa síðan látið af störfum. Yfir þriggja ára skeið hef ég ekki skipað nýja sendiherra í embætti,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra þegar hann fylgdi nýju frumvarpi um utanríkisþjónustu Íslands úr hlaði á Alþingi 6. maí.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson

Frumvarpið verði dregið til baka

Frumvarpið fjallar einkum um hvernig standa á að skipun sendiherra. Það er nú til umfjöllunar í utanríkismálanefnd og stefnt er að því að það verði að lögum á þessu þingi. 

Umsagnarfresti lauk í dag. Í umsögn Gegnsæis, samtaka um spillingu, er varað við því að frumvarpið verði afgreitt með hraði. Vegna COVID-kringumstæðna hljóti það ekki faglega rýni. Verið sé að leggja fram tvenns konar fyrirkomulag við skipan sendiherra, annars vegar faglegt og gagnsætt og hins vegar ófaglegt og ógagnsætt.

Gunnar Pálsson sendiherra gagnrýndi frumvarpið harkalega þegar það var kynnt í samráðsgáttinni. Í umsögn sem hann hefur sent utanríkismálanefnd segir hann að frumvarpið sé illa rökstutt, mótsagnakennt og ruglingslegt. Þó að markmið þess sé að fækka sendiherrum feli það ekki í sér neina tryggingu fyrir því að heildarfjöldi sendiherra dragist saman. Þvert á móti bjóði frumvarpið upp á að auðveldara verði að fjölga sendiherrum. Niðurstaða hans er að frumvarpið sé ekki fallið til þess að styrkja utanríkisþjónustuna eða gera henni fært að takast á við þær breytingar sem eru að verða í alþjóðlegu starfsumhverfi hennar.

„Æskilegt er að frumvarpið verði dregið til baka og þess í stað ráðist í yfirgripsmeiri skoðun á starfsháttum utanríkisþjónustunnar, starfsflokkum og sendiskrifstofum, með hliðsjón af þeim tæknilegu breytingum og sjónarmiðum nútíma mannauðsstjórnunar sem ryðja sér nú til rúms í alþjóðlegu samstarfi“ segir Gunnar Pálsson í umsögn sinni.

Þrjár leiðir í sendiherrastólinn

Heildarfjöldi sendiherra er nú 36. Sendiskrifstofur er 25 talsins. Í frumvarpinu er kveðið á um þrenns konar leiðir til að skipa sendiherra. Í fyrsta lagi að sendiherrastöður verði auglýstar. Gerðar verði hæfniskröfur um að umsækjendur hafi lokið háskólaprófi og hafi víðtæka reynslu af alþjóða- og utanríkismálum. Miðað er við að fjöldi sendiherra verði sá sami og sendiskrifstofurnar eru eða 25. Þó er heimilt að skipa fimmtungi fleiri eða fimm þannig að sendiherrar skipaðir með auglýsingu gætu orðið 30 talsins. Þessari tilhögun er almennt fagnað. Hins vegar hefur ráðherra tvær aðrar leiðir til að skipa sendiherra án þess að stöðurnar séu auglýstar.

Hann getur í fyrsta lagi skipað sendiherra tímabundið til allt að fimm ára. Ráðherra ákveður hlutverk og valdsvið þessara sendiherra sem skipaðir yrðu með sérstöku erindisbréfi. Ekki er hægt að framlengja ráðningu þeirra né heldur flytja þá milli starfa eins og tíðkast í utanríkisþjónustunni. Tilgreint er að með þessu móti yrði ráðherra gert kleift að leita út fyrir raðir fastra starfsmanna og skipa sendiherra með sérþekkingu til dæmis úr atvinnulífinu. Fjöldi sendiherra í þessum flokki má þó ekki fara yfir fimmtung af heildarfjölda sendiherra sem skipaðir eru með auglýsingu. Eða þeir geta ekki verði fleiri en sex. 

Þá er kveðið á um að ráðherra geti veitt sendifulltrúum sendiherranafnbót tímabundið. Þeir megi þó ekki vera fleiri en sex eða ekki meira en fimmtungur af heildarfjölda sendiherra sem fengið hafa embætti að undangenginni auglýsingu. Samkvæmt þessu gætu sendiherrar orðið 42 talsins. Þrjátíu ráðnir með auglýsingu og 12 sem ráðherra skipar.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi