Hætta með prentútgáfu yfir 100 dagblaða

28.05.2020 - 10:42
epa08448759 News Corp Australia's Holt Street headquarters in Sydney, Australia, 28 May 2020. News Corp Australia has announced the bulk of its regional and suburban community papers across the country will go digital only from June 29.  EPA-EFE/DEAN LEWINS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Ástralska fjölmiðlasamsteypan News Corp Australia tilkynnti í dag að prentútgáfu yfir 100 héraðsdagblaða verði hætt og blöðin færð á netið. Samhliða verður umtalsverðum fjölda starfsmanna, sem m.a. starfa í prentsmiðjum fjölmiðlasamsteypunnar sagt upp.

Ákvörðunin hefur vakið sterk viðbrögð hjá bæði starfsmönnum og lesendum sem segja þetta „hræðilegan dag fyrir blaðamennsku“. Áhrifin á fjölda bæja verði mikil og  þúsundir frásagna verði með þessu aldrei birtar.

Ástralska útgáfa Guardian hefur eftir Michael Miller, stjórnarformanni News Corp Australia, að til standi að flytja flest blöðin yfir á stafrænt form, þó að útgáfu nokkura tuga blaða verði alfarið hætt. Segir Miller ákvörðunina hafa verið tekin í kjölfar kórónaveirufaraldurins, sem hafi komið illa niður á auglýsingatekjunum sem haldi útgáfu blaðanna gangandi. 

Darren Chester, þingmaður ástralska Þjóðarflokksins, er einn þeirra sem tjáð hefur sig um málið. Segir hann ömurlegt að upplifa lokanirnar. Aðrir hafa þá bent á að lesendur á mörgum svæðum þurfi á prentmiðli að halda til að hafa aðgang að fréttum og eins eigi héraðsblöðin stóran þátt í að tryggja að fulltrúar sveitastjórna svari fyrir ákvarðanir sínar.  

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi