Breska stjórnin hrekst undan erfiðum málum

28.05.2020 - 16:55
Bretland · Brexit · COVID-19 · Erlent
Mynd: EPA / EPA
Síðdegis kynnti breska stjórnin ný áfrom um léttingu veirubanna. Stjórnin hrekst þó undan erfiðum málum, bæði sjálfsköpuðum vanda eins og broti nánasta ráðgjafa forsætisráðherra á ferðabanni og svo hvernig eigi að vinda ofan af ferða- og samkomubanni. Og svo er það Brexit.

Spænska veikin – þögn fjölmiðla

COVID-19 faraldurinn er iðulega borinn saman við spænsku veikina, sem herjaði á heiminn fyrir rétt rúmri öld. Fjölmiðlar þess tíma, prentmiðlarnir, birtu vissulega stöku fréttir um veikina en annars sér henni varla stað í blöðunum. Og sem sjá má af þingtíðindum þeirra tíma var hún lítt rædd í þingsölum.

COVID-19 yfir og allt um kring

Nú er öldin önnur. Jafnt í fjölmiðlum sem félagsmiðlum eru veirufréttirnar yfir og allt um kring og skyggja á flest annað. Stjórnmálamenn koma daglega fram á sjónarsviðið til að ræða framvinduna sem hér í Bretlandi hefur verið heldur dapurleg, dánartalan hér orðin sú hæsta í Evrópu. Hvort sem hremmingarnar verða munaðar síðar meir fyrst og fremst sem efnahagshremmingar eða heilsuvá, eða hvort tvegggja, þá er ljóst að eftirmæli ríkisstjórnarinnar og þó einkum forsætisráðherra eru samtvinnuð veirufaraldrinum.

Forsætisráðherra og þingnefndin

Í vikunni sat Boris Johnson forsætisráðherra fyrir svörum hjá nokkurs konar eftirlitsnefnd þingsins, skipuð formönnum þingnefnda. Hlutverk hennar er meðal annars að yfirheyra forsætisráðherra þrisvar á ári um helstu þingmálin. Johnson hefur þó ekki mátt vera að því að sitja fyrir svörum nefndarinnar fyrr en nú.

Ráðgjafinn enn til umræðu

Forsætisráðherra var rækilega spurður út í málefni nánasta ráðgjafa síns, Dominic Cummings, sem hefur átt athygli fjölmiðla og landsmanna síðan fyrir helgi að upplýst var um ferðir Cummings í mars og apríl, sem lögreglan telur nú brot á ferðabanni.

Meg Hillier þingmaður Verkamannaflokksins spurði forsætisráðherra hvort hann hefði ekki áhyggjur af að skilaboð hans og stjórnarinnar um boð og bönn virtust ekki sérlega skýr. Cummings hefði ljóslega vitað hvað hann mætti en allir aðrir vissu það greinilega ekki.

Gagnrýnisefni: kvaðir og óklár skilaboð

Nei, forsætisráðherra taldi ekkert fara á milli mála. Þingmaðurinn greip fram í fyrir forsætisráðherra, hún væri ekki sú eina sem hefði fengið hrinu skilaboða frá kjósendum sem nú veltu fyrir sér hvað mætti og hvað ekki. Þetta skipti máli því það væru enn heilmiklar kvaðir á þjóðinni. Forsætisráðherra sagðist ekki sammála, hann sæi af tölum að fólk væri að fylgja reglunum.

Stuðningur við forsætisráðherra fer dvínandi

Í stóra samhenginu má spyrja hvaða áhrif mál Cummings hafi. Í litla samhenginu, hér og nú, hefur fylgi Johnsons og ríkisstjórnarinnar fengið rækilegan skell. Trú kjósenda á Johnson snarlækkaði um helgina, eftir Cummings-fréttirnar, í framhaldi af minnkandi tiltrú kjósenda undanfarið. Keir Starmer nýkjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins stendur aðeins betur en áður og flokkur hans saxar á forskot stjórnarflokksins.

Stjórnin nær ekki tökum á opnun skóla

Sem stendur glímir stjórnin við að vinda ofan af samkomu- og ferðabanni sem enn er verulegt. Skólar enn lokaðir en stjórnin leggur allt kapp á að yngstu og elstu krakkarnir fari að komast í skólann. Meðan forsætisráðherra lýsti því fyrir þingnefndinni hvernig stjórnin hefði búið í haginn fyrir opnun skólanna fékk tíðindamaður Spegilsins skilaboð frá móður í London, sem var einmitt að hlusta á þingnefndarfundinn. Skóli dóttur hennar hafði hug á að opna eftir helgi en hafði nú skipt um skoðun. Það væri engin leið að opna því skólinn gæti ekki uppfyllt opinberar kröfur um öryggi barna og kennara.

Landið hangir í bönnum, óklárt hvernig eigi að komast úr þeim

Alla vega fyrir þennan skóla voru fullyrðingar forsætisráðherra ónógar. Sama heyrist víðar. Stjórnin virðist vera að fara hér halloka. Eftir að hamra fyrst á að skólar ættu að opna 1. júní er boðskapurinn núna að miða við 1. júní en annars þegar þeir geta. Tilfinningin hér er að landið hangi í bönnum, sem stjórnin viti ekki hvernig eigi að létta.

Dauðdagar á hjúkrunarheimilum enn óupplýst saga

Annað mál, sem ríkisstjórnin hefur ekki náð sannfærandi tökum á, eru dauðsföll á elli- og hjúkrunarheimilum. Heimilin sátu á hakanum varðandi hlífðarbúnað. Og vistmenn voru sendir þangað af sjúkrahúsum, án skimunar og smituðu þá iðulega bæði starfsfólk og aðra vistmenn.

Aflandsvædd hjúkrunarheimili, starfsfólk á lágmarkslaunum

Mörg heimilanna eru í eigu aflandsvæddra vogunarsjóða sem hafa milljónir punda út úr rekstrinum meðan öll dagleg starfsemi heimilanna hvílir á herðum starfsfólks á lágmarkslaunum. Sagan um dauðsföllin á þessum heimilum er fjarri því á enda.

Og svo eru það Brexit-flækjurnar

Og svo er það Brexit, hljómaði allt svo einfalt þegar ungleg Theresa May tilkynnti leiðtogaframboð sitt í lok júní 2016. Brexit þýddi Brexit.

May hélt áfram að endurtaka þessa rullu en málið hélt áfram að flækjast fyrir henni og þjóðinni. Boris Johnson, í samvinnu við Dominic Cummings, hafði Brexit-áætlun þegar hann tók við sem forsætisráðherra í fyrra. Allt gekk upp, þar til COVID-19 veiran brá fætinum fyrir Brexit-áætlun stjórnarinnar, alla vega í bili.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi